Ný skilgreining á þynningarsvæði í kringum álverið í Straumsvík hefur vakið upp áratuga gamlar deilur um kvaðir á jarðir þar í kring. Það er á jörðunum Óttarsstöðum, vestan við álverið, þar sem nú standa gamlir bústaðir, en þynningarsvæðið nær yfir fleiri jarðir.

Af 1.400 hekturum Óttarsstaða I og II eru 250 innan þynningarsvæðis og 456 ónothæfir undir byggingarsvæði. Álverið má „þynna“ mengun, aðallega brennisteinsdíoxíð og flúormengun, samkvæmt samkomulagi ríkisins við eigendur álversins frá árinu 1966. Mega eigendur jarðanna ekki nýta hana með eðlilegum hætti.

Eigendur Óttarsstaða hófu málaferli gegn ríkinu, Hafnarfjarðarbæ og álverinu árið 2007 enda var verðmæti hins ónothæfa lands áætlað á fimm milljarða króna. Sögðu þeir ríkið hafa framselt réttindi sín án þess að spyrja eða láta vita. Í samtali við DV árið 2017 sagði Gréta E. Sörensen, einn eigendanna, að landið hefði verið tekið af þeim og „sett í álög.“ Lúðvík Geirsson, þáverandi bæjarstjóri, sagði eigendurna hafa sýnt tómlæti. Tvívegis fóru mál fyrir Hæstarétt en höfðu ríkið, bærinn og álverið betur.

Krefja bæinn um breytingu á skipulagi

Nýjar Evrópureglur heimila ekki lengur að stóriðnaði sé heimilt að þynna mengun á jörðum utan verksmiðjunnar. Hafa eigendur Óttarsstaða því nú krafið Hafnarfjarðarbæ um að breyta skipulagi svæðisins í samræmi við það.

„Starfsleyfi álversins í Straumsvík rann nýlega út og var ákveðið að framlengja það óbreytt um eitt ár. Eigendur Óttarsstaða telja það ekki fá staðist í lögum að tilviljunarkennd atriði ráði starfsleyfi álversins,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður eigendanna. Hefur hann mótmælt ákvörðuninni og er hún nú á borði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Jörð Óttarsstaða má sjá á handan Straumsvíkur.
Mynd/Einar Ólason

Nú er hins vegar rætt um að svæðið verði skilgreint varúðarsvæði en ekki þynningarsvæði. Muni eigendurnir því áfram ekki mega nýta landið eins og þeir kjósi. Hefur Ragnar einnig mótmælt því bréfleiðis. „Umhverfisstofnun, verksmiðjan og Hafnarfjarðarbær sitja á fundum og ræða framtíðarráðstöfun á landi Óttarsstaða, að mínu viti án heimildar, og virðast telja að hægt sé að komast undan niðurfellingu þynningarsvæða með því að breyta um nafn,“ segir Ragnar. „Ekkert samráð hefur verið haft við eigendurna sem þurfa að þola mengunina og skerðingu á eignarrétti.“

Ragnar segir eigendurna fúsa til til sölu eða leigu á umræddum hluta jarðarinnar en það hafi ekki verið tekið í mál. Heldur ekki að greiða skaðabætur en Ragnar telur ríkið, bæinn og álverið hafa sömu hagsmuni af því að geta nýtt land Óttarsstaða án endurgjalds.

Hafna skaðabótaábyrgð

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, hafnar skaðabótaábyrgð í svarbréfi til Ragnars og beinir erindi um skipulag til Hafnarfjarðarbæjar. Málið er á byrjunarreit hjá Hafnarfjarðarbæ og hefur bæjarráð falið lögmanni að svara bréfi Ragnars.

„Þynningarsvæðið er nú þegar skilgreint sem varúðarsvæði í aðalskipulagi þannig að þetta er engin breyting á skipulagi,“ segir Hlín Gísladóttir, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun. „Við erum nú að vinna að því að fella þynningarsvæði á brott úr starfsleyfinu en engin ákvörðun verið tekin.“ Samkvæmt skilgreiningu er varúðarsvæði svæði þar sem hætta er fyrir heilsu og öryggi, svo sem vegna mengandi starfsemi. Kvaðir myndu því haldast.

Hlín segir skipulagsvaldið á höndum Hafnarfjarðar. Vöktun muni nú hefjast á svæðinu og hugsanlega verði hægt að minnka varúðarsvæðið sé þar engin hætta.

Aðspurð um aðkomu landeigenda að ákvarðanatökunni segir Hlín almenning geta komið með athugasemdir til Umhverfisstofnunar um starfsleyfi álversins og til Hafnarfjarðarbæjar ef bæjarstjórn hygðist breyta varúðarsvæðinu. „Ég hef bent lögmanni Óttarsstaða á að hann geti fengið fund til að fara yfir þetta mál,“ segir hún.