Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja hefur óskað eftir afstöðu Minjastofnunar til þess að farga skipinu Blátindi sem sökk í óveðri í febrúar á síðasta ári. Sérfræðingur sem ráðið fékk til sín metur að það muni kosta um og yfir 200 milljónir að koma bátnum í sýningarhæft ástand. Telur ráðið ekki verjandi að eyða slíkri fjárhæð í endurbyggingu. Um fimm milljónir króna kostar að farga skipinu.

Blátindur var smíðaður í Vestmannaeyjum árið 1947 og var gerður út frá Eyjum til 1959. Í fornbátaskrá er fjallað sérstaklega um Blátind. Þar segir að í Vestmannaeyjum hafi verið smíðaðir 28 opnir bátar og 76 þilfarsvélbátar úr eik og furu. Blátindur sé síðasti vélbáturinn sem eftir er af þessum flota.

Í mati sérfræðingsins, Guðmundar Guðlaugssonar, kemur fram að ekki sé raunhæft að gera hann upp vegna gífurlegs kostnaðar. Nánast allt fyrir ofan dekkbita sé ónýtt. Verkið sé sérhæft og efniviður dýr en einnig illfáanlegur. Að koma skipinu í sómasamlegt ástand, sem sýningarbáti, myndi kosta ekki undir 100 milljónum en að koma skipinu í haffært ástand myndi kosta helmingi meira.

Ráðið bendir á að allar ákvarðanir varðandi framtíð Blátinds séu háðar samþykki Minjastofnunar enda er báturinn friðaður.