Í ljósi umfjöllunar um ferjuna Baldur í þætti Kveiks sendu sveitarfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur frá sér yfirlýsingu, þar sem þau krefjast þess að ferjunni verði lagt fyrir fullt og allt.

Í þættinum var ömurlegt ástand skipsins sýnt, bæði hvað varðar öryggismál sem og almennan aðbúnað.

Sveitarfélögin hafa ítrekað bent á þá staðreynd fyrir daufum eyrum að ferjan uppfylli ekki þá öryggisþætti og aðbúnað sem nútíma ferja á að gera.

„Öryggi farþega og áhafnar er stefnt í hættu alla daga og krefjast sveitarfélögin þess að samstundis verði brugðist við og ráðstafanir gerðar,“ segir í yfirlýsingunni. 

Sveitarfélögin fagna því að byrjað sé að teikna nýja ferju en slík áform hafa ekki verið kynnt fyrir þeim.

Í þættinum kom fram að hafin væri endurhönnun á ekjubrúm á Brjánslæk og í Stykkishólmi og stefnt væri að því að Herjólfur III. gæti hafið siglingar á haustmánuðum 2023. Það finnst sveitarfélögunum of langur tími.

„Sveitarfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum krefjast þess að nauðsynlegar framkvæmdir verði settar í algjöran forgang og farið verði af stað með þær strax, svo hægt verði að leggja núverandi ferju fyrir fullt og allt,“ segir í yfirlýsingunni.