Bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra Seltirninga telja laun Þórs Sigurgeirssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins og nýs bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar, allt of há miðað við ábyrgð og umfang starfsins. Þau telja rétt að lækka laun hans um að minnsta kosti hálfa milljón á mánuði.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá því í gær.

Ráðning Þórs var staðfest á bæjarstjórnarfundi í gær og telja fulltrúar minnihlutans að laun Þórs upp á 1.833.333 krónur á mánuði, auk bílastyrks upp á 63.500 krónur og þóknun fyrir setu í bæjarstjórn sem gera launin að 2.177.241 krónu allt of há.

Til viðbótar við tæpar 2,2 milljónirnar bætist svo við þóknun fyrir setu í stjórn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sem geri heildarlaun Þórs að 2,4 milljónum á mánuði.

Í bókum Samfylkingarinnar kemur fram að ráðning Þórs kosti bæinn með launatengdum gjöldum rúmlega 2,7 milljónir króna á mánuði eða um 33 milljónir á ári.

„Þessi laun eru allt of há fyrir stjórn í 4.700 manna bæjarfélagi, sem þar að auki er að takast á við erfiða fjárhagsstöðu,“ segir meðal annars í bókun Samfylkingarinnar og óháðra Seltirninga.

Lækkun um 500 þúsund krónur á mánuði myndi skila sex milljónum á ári sem hægt væri að nýta til að bæta umhverfi skólanna, styrkja félagsþjónustuna eða styrkja tómstundastarf barna á nesinu.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og óháðra telja launin ekki ábyrga meðferð á fjármunum bæjarins og greiddu því atkvæði gegn samningi Þórs.

Bæjarstjórnin staðfesti samninginn með fjórum atkvæðum gegn þremur í gær.