Evrópskt sprota­fyrir­tæki sem vinnur að smíði eld­flauga vill skjóta á loft til­rauna­eld­flaugum á Ís­landi. Frá þessu var greint í kvöld­fréttum RÚV. Forsvarsmenn þess hafa átt fundi með Landhelgisgæslunni og fleirum vegna málsins.


Fyrir­tækið heitir Skyrora en það lýsir sér sjálft sem „Uber geim­iðnaðarins“. Höfuð­stöðvar þess eru í Edin­borg í Skot­landi og smíðar fyrirtækið eld­flaugar sem er ætlað að ferja gervi­hnetti út í geim.

For­svars­menn fyrir­tækisins eru nú í heim­sókn á Ís­landi í von um að finna svæði til að skjóta eld­flaugum sínum á loft. „Þetta er ein­stök land­fræði­leg lega, sér­stak­lega við norður­ströndina,“ sagði við­skipta­stjóri Skyrora, Owian Hug­hes, í kvöld­fréttum. „Þar er strjál­býlt og ein­stakt að­gengi að bæði keilu- og pól­brautum fyrir gervi­tungl.“

Fyrir­tækið kveðst hafa átt fundi með Land­helgis­gæslunni, flug­mála­yfir­völdum og sveitar­fé­lögum á Norð­austur­landi til að fá leyfi fyrir eld­flauga­skotunum. Við­skipta­stjórinn segir ætlunina að skjóta þremur eld­flaugum frá Ís­landi í ár.

„Á næstu tólf mánuðum ætlum við að skjóta á loft eld­flaugum, allt frá tveggja metra löngum upp í ellefu metra löngum, sem ná upp í 45 til 100 kíló­metra hæð,“ sagði hann. Um er að ræða til­rauna­skot sem falla aftur til jarðar. „Við hyggjumst skjóta þeim þannig að þær lendi í hafinu en vinnum með yfir­völdum, meðal annars Land­helgis­gæslunni, til að tryggja að sjó­mönnum stafi engin hætta af þeim. Það verður ekkert varan­legt tjón á neinu og allt verður sótt í land aftur eins fljótt og hægt er.“

Ís­land virðist vera afar eftir­sóttur staður geim­vísinda­manna. NASA hefur undan­farið prófað búnað sinn hér, nú síðast sér­stakan Mars-jeppa á Lamba­hrauni. Owian sagðist að lokum vona að verk­efnið kveiki á­huga Ís­lendinga á geim­iðnaðinum og vill að fram­halds­skóla- og há­skóla­nemar landsins fái að koma að verk­efninu.