Hrekkja­vaka verður haldin næstu helgi og eru víða um land skipu­lögð partý og við­burðir á heimilum, vinnustöðum og í skólum.

„Sí­fellt fleiri halda hrekkja­vöku há­tíð­lega hér á landi og hafa tekið upp þann sið að skera út gras­ker. Á ári hverju eru á heims­vísu mörg þúsundir tonna af gras­kerum sem fara í ruslið eftir Hrekkja­vöku án þess að nokkur hafi borðað inni­hald þeirra. Slík sóun er mjög slæm fyrir um­hverfið,“ segir Gró Einars­dóttir, sér­fræðingur hjá Um­hverfis­stofnun, en hún er með alls­konar lausnir og hug­myndir fyrir fólk sem vill taka þátt í hrekkja­vöku­há­tíðinni en vill ekki sóa matnum.

„Það er rosa­legt magn af gras­kerjum keypt á þessum tíma og flest þeirra eru ræktuð til að vera skraut­gras­ker en ekki til að borða. Það er tekið innan úr þeim og því svo oft hrein­lega hent,“ segir Gró, en hún er með alls­konar lausnir og hug­myndir fyrir fólk sem vill taka þátt í hrekkja­vöku­há­tíðinni en vill ekki sóa matnum.

Það er hægt að búa til súpu eða nota annars konar grasker en almennt tíðkast.
Fréttablaðið/Getty

Hægt að skera út tortilla-kökur og mandarínur

„Það er hægt að nálgast þetta öðru­vísi og hægt að kaupa eitt­hvað í staðinn sem er ætt, eins og til dæmis butt­ernut squ­ash, sem er ein tegund gras­kers, sem er betra til mat­reiðslu. Ef maður notar það til að skreyta eru meiri líkur á að það verði notað innan úr því þar er aðal­málið inni­haldið,“ segir Gró.

Hún segir að einnig sé hægt að nota mandarínur, skera and­lit á tortilla-kökur, sykur­púða sem drauga og pylsur sem eru vafðar inn í deig.

„Það er hægt að leika sér með alls­konar og við mælum meira með því frekar að skoða aðrar lausnir en að fara beint í gras­kerin sem fólk nýtir oft ekki eins vel,“ segir Gró.

Hún segir að það sé hægt að nýta inni­haldið úr gras­kerunum í súpu eða skola af fræjunum og rista þau með smá olíu og setja í salat.

Hægt er að kynna sér fleiri leiðir til að sporna við matar­sóun á vefnum www.saman­gegn­soun.is en þar munu í vikunni birtast upp­skriftir og hug­myndir sem hægt er að nýta.

Hægt er að nýta matinn og fræin innan úr graskerjunum
Mynd/Samsett