Ísraelsku samtökin Shurat HaDin vilja að ísraelski innanríkisráðherrann Aryeh Deri komi í veg fyrir að hljómsveitinni Hatara verði gert kleyft að komast til landsins í maí næstkomandi og þar með keppa í Eurovision en þetta kemur fram í frétt ísraelska miðilsins ynetnews.com. Samtökin beita sér meðal annars fyrir réttindum íbúa Ísraels sem orðið hafa fyrir hryðjuverkum, að því er fram kemur í frétt ísraelska miðilsins.

Ástæða þess er að þau segja að meðlimir Hatara muni beita sér fyrir málstað Palestínumanna í keppninni og er þar einnig vísað í viðtal Stundarinnar við sveitina þar sem þeir segja að þeir vilji nýta dagskrárvaldið í Eurovision til að gagnrýna stefnu Ísraelsríkis. Þá er jafnframt vísað til þess þegar sveitin skoraði á Benjamin Netanyahu í íslenska glímu eins og frægt er orðið.

Samtökin vísa þá einnig í upplýsingar sem þau hafa undir höndum sem bendi til þess að hljómsveitin styðji sniðgöngu á Ísraelsríki og segir forsvarsmaður samtakanna Nitsana Darshan-Leitner að sveitin hafi skrifað undir  undirskriftalista um sniðgöngu á Ísrael og vísar jafnframt í ísraelsk lög, sem kveða á um að erlendir aðilar sé meinað inngöngu inn í landið hafi þeir kallað eftir sniðgöngu.

„Íslenska hljómsveitin kallaði eftir og studdi sniðgöngu á Ísrael. Það verður að meina þeim inngöngu inn í landið,“ segir Nitsana. Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að erindið verði skoðað en ekki tekin ákvörðun fyrr en eftir að málið hafi verið tekið til meðferðar.

Fréttin hefur verið uppfærð.