Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, eru sammála um að taka ætti upp bólusetningarskírteini til að unnt sé að rýmka takmarkanir. Leiðin sé ekki óumdeild en notuð víða í nágrannalöndum.

„Það eru mótmæli upp á hvern einasta dag í Frakklandi. Stjórnvöld þar meta það þó svo, út frá heildarhagsmunum samfélagsins, að réttlætanlegt sé að mismuna við þessar kringumstæður til að halda samfélaginu gangandi,“ segir Andrés.

„Það er eðlilegt að skoða alla kosti. Þetta er leið sem er notuð í mörgum löndum í kring,“ segir Jóhannes. Fyrir sinn umbjóðendahóp, til dæmis afþreyingarfyrirtæki, hótel og veitingastaði sem taki við hópum, skipti það miklu að geta rýmkað takmarkanir.

Skírteini af þessum toga séu ekki óumdeild, þar sem þau mismuni fólki, en það sé nú þegar gert. Til dæmis á landamærunum.

Andrés segir óþol atvinnulífsins orðið mikið gagnvart stefnu stjórnvalda í sóttvarnamálum. Reglum sé breytt, jafnvel tvisvar í viku.

„Við heyrum það á okkar umbjóðendum að þeir skilja ekkert í reglunum. Það er ekkert samræmi milli þeirra mælikvarða sem settir eru og þeirra aðgerða sem gripið er til,“ segir hann og vísar til spálíkananna og að tölur um innlagnir á spítala og gjörgæslu séu langt undir björtustu spám.

Sem dæmi um hversu lamandi aðgerðirnar eru þá heyri hann frá umbjóðendum sínum sem selji lækninga- og hjúkrunarvörur, föstum birgjum Landspítalans, að salan hafi minnkað. Önnur starfsemi spítalans líði fyrir takmarkanirnar.

Jóhannes segist ekki þora að spá um hvort stjórnvöld taki upp bólusetningarskírteini. Hann bendir þó á að skírteinin myndu skapa hvata til að fólk léti bólusetja sig. Óbólusettir valdi mestum þrýstingi á spítalann í dag.

jóhannes-þór-skúlason.jpg

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar