Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram fyrirspurn um að Árborg myndi hafa forgöngu að því að unnin yrði skýrsla um mat á arðsemi, umferðaröryggi, tengingu svæða og byggðaþróun vegna jarðganga eða vegskála undir Hellisheiði og gegnum Svínahraun. Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar, telur að það sé rökrétt skref að skoða þetta.

„Ég myndi segja að það ætti að skoða þetta af alvöru í ljósi þeirrar uppbyggingar sem hefur átt sér stað á þessu svæði. Ekki bara í Árborg heldur líka í Hveragerði og í Þorlákshöfn. Samgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og svæðisins austan Hellisheiðarinnar eru í stöðugum vexti og eins og sést hefur í vetur getur það staðið mjög tæpt hvort að það sé fært eða ófært,“ segir Sigurjón sem sér fram á að það gæti verið sniðugt að fara öðruvísi leið við að leggja göngin eftir að hafa unnið um tíma við Vaðlaheiðargöng sem jarðfræðingur.

„Ég held að það sé fýsilegast að fara í þessa vegskálaleið (e. cut and cover) sem er víða notað erlendis. Þá er grafinn skurður, vegskálinn byggður og síðan mokað yfir hann. Maður gæti alveg séð það fyrir sér að þetta yrði fýsileg framkvæmd því þetta er ekki dýrara en jarðgöng.“

Hann segir að jarðefnin geti nýst svæðinu. „Jarðefnin sem losna við framkvæmdirnar gætu farið til uppbyggingar á vegakerfinu, til dæmis í Þrengslaveg og Ölfusveginn. Þorlákshöfn er að byggjast upp sem stærðarinnar stórskipa- og útflutningshöfn. Traffík eykst þangað sem þýðir að við þurfum að byggja upp vegakerfi sem nær að sinna því.“