Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir því að Alþingi komi saman á þriðjudag og þar fari fram sérstök umræða við forsætisráðherra um þá hættu sem skapast geti vegna hópamyndana um áramótin.

Einnig vill þingflokkurinn ræða áhrif „háttsemi fjármála- og efnahagsráðherra og skeytingarleysis hans um sóttvarnarreglur,“ eins og það er orðað í yfirlýsingu frá flokknum en Bjarni Benediktsson hefur gengist við því að hafa verið viðstaddur 40 til 50 manna sam­kvæmi á Þorláksmessu, þvert á sóttvarnareglur.

Þegar er búið að fresta frekari þingfundum fram til næsta árs.

„Ástæða er til að ætla að skeytingarleysi fjármála- og efnahagsráðherra um sóttvarnarreglur muni draga dilk á eftir sér og hafa þær afleiðingar að fleiri kjósi að virða sóttvarnarreglur að vettugi,“ segir í yfirlýsingu frá Samfylkingunni.

Miðflokkurinn vill að þing komi saman á morgun

Þá er haft eftir Oddný að síðasti spölurinn sé nú eftir í baráttunni við heimsfaraldurinn.

„Bóluefnið er ekki komið og það þarf enn lítið til að hættuástand myndist. Traust á sóttvarnaraðgerðum, samheldni og gott fordæmi stjórnvalda verður að vera í algjörum forgangi.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnarandstaðan óskar eftir því að þing komi óvænt saman fyrir áramót en Miðflokkurinn kallaði eftir því fyrir helgi að þingheimur myndi ræða afhendingu bóluefna við COVID-19 eigi síðar en á morgun.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur ekki orðið við þeirri beiðni. Hann hafði ekki tekið afstöðu til beiðnar Samfylkingarinnar á fimmta tímanum í dag og sagði í samtali við Vísi að það væri ekki einfalt fyrir forseta Alþingis að boða þingfund með svo skömmum fyrirvara.