Guðrún Erla Geirsdóttir, einn stofnenda Kvennaframboðsins, oft kölluð Gerla, vakti athygli á því að aðeins karlmenn skipi Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar í ár.

„Ég get ekki verið ein um að vera hugsi yfir að hjá Reykjavíkurborg sé árið 2022 ráð aðeins skipað körlum. Hvar er nú arfleifð okkar Kvennaframboðsins,“ skrifaði hún í færslu á Facebook.

Sannarlega var Gerla ekki ein um þessa skoðun en netverjar hafa velt vöngum yfir karlaráðinu á samfélagsmiðlum.

Gerði strax athugasemd við listann

Skúli Helgason, nýskipaður formaður Menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, segist hafa sjálfur gert athugasemd um listann. Hann telur að um sé að ræða tilviljun þar sem oddvitar flokkanna skipi fólki til verka og beri ekki alltaf saman bækur.

„Þetta var það fyrsta sem ég rak augun í þegar ég sá listann,“ segir Skúli Helgason, formaður ráðsins, í samtali við Fréttablaðið.

„Ég gerði athugasemd um þetta og það er alveg klárt að þetta verður tekið upp í nefndinni,“ bætir hann við.

Í borgarráði má einnig sjá nokkurn halla þar sem eru sex konur og einn karl. Skúli tekur undir með því að mikilvægt sé að fjölbreyttar raddir séu í ráðum.

Þórdís telur að endurskoða þurfi skipanir í ráð og nefndir

„Mér finnst það ekki gott,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs um þá staðreynd að einungis karlar skipa menningar-, íþrótta- og tómstundaráð.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að við munum ræða að laga þetta,“ segir Þórdís.

„Við þurfum að skoða að það eru einungis karlar í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði en líka að það eru bara konur í velferðarráði.“ Aðspurð um ástæður þess að svona skipast í ráðin segir Þórdís það af því að meirihlutaviðræður tóku langan tíma.. „Vanalega væri þetta gert með meiri fyrirvara.“