Þing­menn Pírata hafa lagt fram þings­á­lyktunar­til­lögu um heimild til niður­fellingu náms­lána. Björn Leví Gunnars­son, þing­maður Pírata, segir um­ræðu um þetta hafi lengi komið upp í um­ræðu­hópum hjá þeim sem eru með náms­lán.

Al­þingi á­lyktar að fela há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra að leggja til breytingu á lögum um Mennta­sjóð náms­manna, nr. 60/2020, til þess að heimila niður­fellingu náms­lána, að hluta eða að öllu leyti, að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum sem geta verið al­menn, eins og að um­breyta hluta af eldri lánum í náms­styrk, vegna efna­hags­á­stands, eða sér­tæk eins og vegna al­var­legra og varan­legra veikinda lán­taka,“ segir í þings­á­lyktunar­til­lögunni.

„Þarna er beðið um það að fá tvenns konar heimild, annars vegar al­menna heimild, til dæmis við­brögð við verð­bólgu eða ein­hverju því um líku eins og hefði svo sem átt að gera í leið­réttingunni hérna um árið eftir hrun þar sem verð­bólga hús­næðis­lána var leið­rétt en ekki náms­lána,“ segir Björn Leví.

„En svo líka í ein­staka til­fellum þar sem mál­efna­leg sjónar­mið eru til staðar. Þá þarf að greina frá því hvers konar mál­efna­leg sjónar­mið það voru og ég gerði þetta að þings­á­lyktunar­til­lögu af því að ég treysti mér ekki til að fara í alla upp­talninguna á hvaða mál­efna­legu sjónar­mið gætu legið þar undir.“

„Hérna eru á­kveðnir erfið­leikar sem er verið að spyrja hvort hægt sé að taka til­lit til al­var­legra veikinda, varan­legrar ör­orku og svo­leiðis þar sem for­sendur lán­tökunnar hafa al­gjör­lega breyst þar sem við­komandi er kannski bara al­gjör­lega ó­starf­hæfur,“ segir Björn Leví.

Aðspurður að því hvernig þingið muni taka í tillöguna segir Björn Leví: „Ég myndi halda að þetta væri svona augljóst mál að vinna, en við erum með okkar kvóta í því hversu mörg mál mega fara inn í sal og í atkvæðagreiðslu. Þannig að þetta verður áhugavert að sjá.“