Stefnt er að því að heimila stofnun og rekstur sérstakra neyslurýma á Íslandi. Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar geta neytt vímuefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna. Rauði krossinn styður að slíkt verði leyft og að það verði skilgreint sem sérstakt heilbrigðisúrræði.

Heilbrigðisráðherra hefur nú kynnt drög að frumvarpi um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni en með því er ætlað að veita heimild til að stofna og reka neyslurými að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Drög frumvarpsins birtust í Samráðsgátt stjórnvalda í dag en frumvarpið var fyrst lagt fram á Alþingi í mars. Það náði þá ekki fram að ganga.

Neyslurými byggjast á hugmyndafræði skaðaminnkunar, en í henni felst að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar vímuefna án þess þó að draga úr notkuninni sjálfri. Skaðaminnkun á þannig ekki aðeins að gagnast fólki sem neytir efna heldur einnig fjölskyldum þeirra og samfélaginu öllu.

Vilja koma að rekstri neyslurýmis

Rauði krossinn hefur skilað inn umsögn sinni þar sem samtökin lýsa yfir fullum stuðningi við frumvarpið. Samtökin reka nú skaðaminnkunarverkefni á borð við Frú Ragnheiði sem er sérinnréttaður bíll sem er ekið um götur á kvöldin en einstaklingar geta komið í bílinn og fengið hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti.

Í umsögninni kemur fram að einstaklingum fjölgar sem nýta sér slíka þjónustu samtakanna. Rauði krossinn segir þá að mikil þekking á skaðaminnkun hafi skapast innan samtakanna frá stofnun verkefnisins Frú Ragnheiðar og hafa samtökin lýst sig reiðubúin til að koma að rekstri slíks neyslurýmis í Reykjavík þar sem einnig væri hægt að sækja heilbrigðisþjónustu.