Japanska lyfjafyrirtækið Takeda Pharmaceutical stefnir að því að hefja klínískar rannsóknir á mótefni við COVID-19 í sumar út frá gögnum sem fyrirtækið hefur aflað sér hjá fólki sem hefur náð sér af veirunni.

Slík rannsókn tekur nokkra mánuði en forseti fyrirtækisins segir að ef rannsóknin gangi vel gæti félagið reynt að koma lyfinu á almennan markað árslok. Fjallað er um málið á heimasíðu Japantimes.

Fyrirtækið hefur verið að mæla mótefni við COVID-19 en Landsspítalinn hóf rannsóknir á því á dögunum. Með því myndu þeir sem eru sýktir fá skammt af mótefni.

Þá hafa einnig verið gerðar tilraunir með að gefa veikum einstaklingum blóð úr einstaklingum sem hafa náð sér af COVID-19 en óljóst þykir hvort að það skili tilætluðum árangri.

Leið Takeda Pharmaceutical hentar betur að því leiti að mótefnið lifir lengur þegar komið er í lyf heldur en í blóði og er ekki háð því að sjúklingurinn sé í sama blóðflokki.