Evrópska lyfjastofnunin, EMA, er með það til skoðunar að feta í fótspor lyfjaeftirlits Bandaríkjanna og veita leyfi til þess að unglingum á aldrinum 12-15 ára verði gefið bóluefni BioNTech/Pfizer. Bandaríska lyfjaeftirlitið samþykkti neyðarleyfi þess efnis fyrr í vikunni í von um að hindra útbreiðslu veirunnar meðal yngri hópa.

Emer Cooke, forstjóri lyfjastofnunar Evrópu, greindi frá þessu í samtali við þýska fjölmiðilinn Handelsblatt. „Við erum að vonast til þess að leyfið verði til staðar fyrir lok maímánaðar,“ sagði Cooke og bætti við að málið hefði verið til skoðunar frá því í lok apríl. Kanada varð fyrsta þjóðin til að veita leyfi fyrir notkun bóluefnisins á unglingum í síðustu viku.

Samkvæmt rannsóknum framleiðandans í Bandaríkjunum hefur verið sýnt fram á hundrað prósenta virkni bóluefnisins í þessum aldurshópi en unnið er að sambærilegri rannsókn fyrir börn allt niður í sex mánaða gömul.