Í aðdraganda þingkosninga í Þýskalandi þann 26. september vilja nokkrir flokkar koma á hraðatakmörkunum á þeim hluta hraðbrauta landsins þar sem enginn hámarkshraði er. Þýsku hraðbrautirnar, Autobahn, eru þekktar víða um heim af þessum sökum.
Nokkrir flokkar, þar á meðal Kristilegir demókratar sem leiða skoðanakannanir í aðdraganda kosninga og Græningjar vilja nú að hámarkshraði verði settur til að auka umferðaröryggi og draga úr mengun. Rætt hefur verið um hámarkshraða á bilinu 120 til 130 kílómetra á klukkustund.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta er til umræðu og árið 2019 kaus þýska þingið um hámarkshraða en málið var fellt við atkvæðagreiðslu.
Ef 130 kílómetra hámarkshraði yrði settur á myndi það draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í Þýskalandi um 1,9 milljón tonna á ári samkvæmt umhverfisstofnun landsins. Það er einungis um eitt prósent af heildarútblæstri samgangna í landinu en um fimm prósent þess útblásturs sem er af völdum fólksbíla og minni vöruflutningabifreiða. Hámarkshraði upp á 120 kílómetra myndi draga enn frekar úr mengun.