„Við erum að taka til hérna, snyrta og laga. Stefnan er að uppfæra ýmislegt og bæta öðru spennandi við eins og Markaðstorgi. Við ætlum að endurlífga matarmarkaðinn og bjóða upp á allt mögulegt skemmtilegt,“ segir Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins.

Endurbætur á húsnæði Kolaportsins hafa staðið yfir að undanförnu og munu halda áfram næstu vikur og mánuði. Gunnar, sem starfað hefur hjá Kolaportinu frá árinu 1994, segir að endanlegt útlit verði snyrtilegt en samt hrátt, skemmtilegt og vel ilmandi.Opið verður áfram í Kolaportinu allar helgar en tíminn á milli nýttur til þess að vinna hægt og rólega að endurbótunum.

„Meginmarkmið okkar er að halda í góða andann og samtímis snyrta og endurbæta umhverfið. Við viljum koma upp spennandi stað sem verður skemmtilegt að heimsækja fyrir unga sem aldna,“ segir Gunnar.Margir af núverandi leigutökum í Kolaportinu munu halda starfsemi sinni áfram en Gunnar segir að laus pláss séu til fyrir nýja aðila. Hann býst við góðri ásókn í bása, söluborð og pláss til að koma vöru og þjónustu á framfæri.

Sérstök tilboð verða í gangi í febrúar á lausum plássum. „Við gerum ráð fyrir að það verði uppselt áður en allar breytingarnar hafa endanlega átt sér stað. Það er því líklega ágætt að vera tímanlega ef áhugi er fyrir hendi.“Í miðju Kolaportinu verður torg þar sem hinir ýmsu viðburðir geta farið fram. Stefnan er að þar verði meðal annars haldnar pop-up sýningar, ráðstefnur og tónleikar.

Gunnar segir einnig að áhersla verði lögð á vistvænar lausnir. Kolaportið hafi alltaf verið vistvænn staður enda mikil áhersla lögð á endurnýtingu.„Sem dæmi má nefna að allt timbur sem við tökum niður, fer upp aftur í aðrar innréttingar innanhúss enda er markmið okkar að sanna að ekki þurfi alltaf tugi eða hundruð milljóna í breytingar sem þessar. Spurðu mig eftir þrjá mánuði hversu miklu var eytt í nýtt efni og ég skal koma þér á óvart samtímis því að þetta mun líta skemmtilega út.“