Samstaða náðist á fundi fjárlaganefndar í dag um að greiða öryrkjum 53 þúsund króna aukagreiðslu skattfrjálst og skerðingarlaust.

Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sem situr í nefndinni fagnar því að samstaða hafi náðst í nefndinni um þetta málefni. Tillagan er upprunalega frá stjórnarandstöðunni en hún hefur barist fyrir því að ríkisstjórnin greiði öryrkjum eingreiðslu eins og var gert síðustu jól.

„Það var tekin ákvörðun um að fjárlaganefnd myndi standa saman að breytingunatillögu við fjáraukalög. Við sameinuðumst öll um þessa tillögu sem kom upprunalega frá stjórnarandstöðunni en núna er öll nefndin á þessu. Þetta fer þá vonandi inn á þing á morgun,“ segir Kristrún.

Vonast til að greiða út sem fyrst

Er raunhæft að þau fái þá þennan pening fyrir jól?

„Það er ríkisstjórnin sem þarf að svara fyrir það hversu hratt Tryggingastofnun getur snúið sér við en tæknilega séð, ef þingið afgreiðir þetta hratt á morgun, þá verður fjárheimild til að greiða þetta út fyrir jól. Þá er það praktískt atriði hvernig það verður gert. En þetta eru mjög góðar fréttir. Þetta er algerlega á síðasta snúning og korter í jól en við í stjórnarandstöðunni erum rosalega ánægð með að fá stjórnarfulltrúa í nefnd með okkur í þetta, þetta er mjög jákvætt,“ segir Kristrún.

Hún segir að með þessu megi sjá að samstaða í stjórnarandstöðu borgar sig og að hún hafi verið mjög öflug þann mánuð sem að þingið hefur nú verið starfandi.

„Við viljum senda út þau skilaboð að við getum unnið saman að málum og ég held að það sé klárt að umræðan undanfarið hafi skipt miklu máli.“

Hún segir að það sé mikill vilji í nefndinni að þetta verði afgreitt hratt og að það standi ekki á fjárheimild heldur á praktískri útgreiðslu hvernig verður að þessu staðið.

„Þetta leysir kannski ekki grunn vandann í kerfinu okkar en eftir að hafa verið í þessari fjárlagavinnu þá lá fyrir að það væri lítið verið að gera fyrir þennan hóp núna. Það eru meiri fjárheimildir fyrir næsta ár og þetta er það minnsta sem er hægt að gera í núverandi árferði,“ segir Kristrún og að það sé hægt að líta á þetta sem Covid-aðgerð eða viðurkenningu á því hversu lítið hefur verið gert fyrir þennan hóp.

„Þetta er það minnsta sem við gátum gert á þessum tímapunkti.“