„Við höfum heyrt af þessum óánægjuröddum og hlustum á áhyggjur þeirra. Við höfum verið að hitt aðila eins og Ingu Björk (innsk. verkefnastjóri Þroskahjálpar) og unnið með þeim við að finna leiðir og lausnir til að gera betur. Ég er alveg sammála því að það sé pottur brotinn í þessu máli og það þarf að gera miklu betur,“ segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá Stafrænu Íslandi sem sér um rafræn skilríki, aðspurður út í áhyggjur frá jaðarhópum að stafræn framþróun komi niður á þeim.

Fréttablaðið ræddi við Hönnu Sif Hafdal á dögunum en hún er öryrki og búsett í Danmörku. Í viðtalinu kom fram í framtíðinni þyrfti hún að ferðast til Íslands til að endurnýja rafræn skilríki reglulega þrátt fyrir að vera óferðafær. Þá ræddi Fréttablaðið við Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur sem er í doktorsnámi við Háskóla Íslands og rannsakar áhrif innleiðingar rafrænna skilríkja þar sem aðgengi einstaklinga í jaðarhópum að slíkum skilríkjum er mjög takmarkað.

„Það eru örlitlir byrjunarörðugleikar þegar þróunin er jafn hröð og hefur átt sér stað síðustu þrjú ár. Við vinnum hörðum höndum að því að laga þetta, því okkar markmið er að allir hópar samfélagsins geti nýtt sér þessa þjónustu. Það er hins vegar ekki svo að þetta þýði að þetta verði allt í rafrænu formi, það stendur enn til boða að gera þetta eins og áður fyrr.“

Andri Heiðar segir að það sé verið að vinna að því að auðvelda Íslendingum sem eru búsettir erlendis að nota rafræn skilríki.

„Við erum með verkefni í þróun í samstarfi við sendiráðin í London og París að Íslendingar geti virkjað skilríkin í þessum sendiráðum. Það verður fyrsta skrefið og vonandi verður hægt að fjölga sendiráðum þegar það er komin reynsla á þetta,“ segir Andri og heldur áfram:

„Svo erum við að vinna í mikilvægri lausn í samstarfi við Auðkenni, að gera þessa skráningu alveg sjálfvirka. Þá þarftu ekki að fara í sendiráðin, heldur getur gert þetta heima ef þú ert með búnaðinn sem til þarf. Ef einstaklingar eru með síma með NFC (e. Near Field Communication) kerfi og nýtt vegabréf með örgjöva með NFC verður einn daginn hægt að virkja þessi rafrænu skilríki frá heimili fólks,“ segir Andri.