Stjórn Akureyrarsóknar vill að kjöri nýs vígslubiskups að Hólum verði frestað og hefur skorað á bæði kjörstjórn Þjóðkirkjunnar og forsætisnefnd kirkjuþings að gera það. Eftir eigi að ljúka umræðu á kirkjuþingi um hvort leggja eigi embættin niður.
„Menn eru að velta því fyrir sér hvort þessi embætti eigi að vera áfram eða ekki,“ segir Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar, og á við þá umræðu sem hefur verið á kirkjuþingi undanfarið. Til dæmis að embættin yrðu lögð niður eða umfang þeirra minnkað. Þeirri umræðu er ekki lokið.
„Það væri snjallt að klára umræðuna áður en kosið verður,“ segir hann.
Frá árinu 1909 hafa vígslubiskupar verið tveir í landinu, á hinum fornu setrum að Hólum og Skálholti. Eru þeir næst æðstu menn þjóðkirkjunnar. Í Skálholti situr Kristján Björnsson og á Hólum Solveig Lára Guðmundsdóttir.
Hrapaleg mistök að gera embættin að hlutastarfi
Solveig tilkynnti í lok mars að hún myndi láta af embætti í september næstkomandi. Sagðist hún vonast til að vígslubiskupsembættin yrðu með óbreyttu sniði eða efld frekar en hitt.
„Að einangra biskupsembættið með því að gera vígslubiskupsembættin að hlutastarfi væru hrapalleg mistök fyrir kirkjuna enda voru mætir menn og konur búin að berjast fyrir því að biskupsstólarnir tveir myndu öðlast þann sess sem þeim ber,“ sagði hún á kirkjuþingi.
Nýtt kirkjuþing verður kosið um miðjan maí og kemur saman næsta haust. Kjör vígslubiskups fer hins vegar fram í lok júní.
Auk þess að spurningum um framtíð embættanna sé enn ósvarað telur Akureyrarsókn að tímasetning kjörsins sé óheppileg og fyrirvarinn of stuttur. Ekki sé hlaupið að því að ákvarða hvernig eigi að skipta fulltrúum innan prestakallsins og kjörið sé á miðjum sumarleyfistíma.
„Þá er lítið sem ekkert svigrúm gefið fyrir vígða menn að ráða ráðum sínum um tilnefningu og kynna sér hugsanlega frambjóðendur, að ekki sé talað um að kanna hvort hljómgrunnur sé fyrir þá sjálfa að gefa kost á sér,“ segir í yfirlýsingunni.
Telur sóknarnefndin að þessi framgangsmáti sé ólýðræðislegur.
Ólafur segir fulltrúa sóknarinnar ekki hafa rætt við Agnesi Sigurðardóttur, biskup Íslands, um þetta „Þetta ber svo brátt að að það var ekki tækifæri til þess,“ segir Ólafur.
„Þjóðkirkjan sýnir oft yfirskilvitlegan vilja til að koma sér í vandræði og framleiða hneyksli.“
Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur á Akureyri, er einn af þeim sem styður yfirlýsinguna.
„Þjóðkirkjan sýnir oft yfirskilvitlegan vilja til að koma sér í vandræði og framleiða hneyksli,“ segir Svavar á samfélagsmiðlum.
Stefán Magnússon, annar fulltrúa leikmanna í kirkjuráði, telur einnig skynsamlegt að fresta kjörinu.