Andrzej segir að algengt sé að missa tvo daga aðeins í ferðalagið til og frá Keflavík. Leiðin taki sérstaklega langan tíma þegar farið sé með rútu. Þegar lent er í Póllandi tekur svo einnig oft við annað langt ferðalag innanlands. Þá er einnig mikið af innflytjendum, sem hafa sest að til langs tíma á Íslandi, sem fá ættingja og vini í heimsókn. „Ég held að það myndi vera mjög mikill áhugi á þessari flugleið,“ segir hann.

Utanlandsferðir hafa stóraukist á Akureyri eftir að Niceair tók til starfa. Flugfélagið flýgur til Kaupmannahafnar, Düsseldorf, Alicante og Tenerife. Þá er frekari uppbygging Akureyrarflugvallar á teikniborði stjórnvalda og gjaldtaka er áætluð af flugmiðum til að flýta henni.

Andrzej Bednarczyk stofnandi undirskriftasöfnunar

Það er ekki aðeins fólk búsett á Akureyri sem hefur skrifað undir listann. Heldur einnig á Reyðarfirði, Dalvík, Húsavík og fleiri stöðum.

Aðspurður til hvaða flugfélaga Andrzej horfi helst nefnir hann lággjaldaflugfélögin. Meðal flugfélaga sem fljúga frá Keflavík til Póllands er ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air. Ef Niceair eða Play myndu bjóða hagstætt verð yrði það mjög gott.

„Ég er viss um að Íslendingar myndu líka hafa áhuga á flugi til Póllands,“ segir Andrzej. Nefnir hann að ýmis góð heilbrigðisþjónusta sé í boði á góðu verði í Póllandi sem og að afar hagstætt sé að versla þar. „Fyrir utan möguleikann á að verja fríinu í fallegum héruðum Póllands,“ bætir hann við.