Rússneska rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi vill að væntanleg bygging safnaðarins lúti skilmálum eldra skipulags, svo stíll kirkjunnar geti endurspeglað helgihaldið.

Til skoðunar hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjavík er ósk um breytt deiliskipulag fyrir lóð Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Mýrargötu 21- 23. Minnka á umfang og hæð kirkjunnar, lækka kirkjuturna og fækka þeim úr fimm í tvo.

„Ég hef verið beðinn af presti kirkjunnar, séra Timur Zolotuskiy, að koma því á framfæri að eldra deiliskipulagið sé fyrir okkur eftirsóknarverðara,“ segir Guðmundur Pálsson læknir nú, í bréfi fyrir hönd prests rétttrúnaðarsafnaðarins.

„Rétttrúnaðarkirkjur um allan heim hafa gjarnan sóst eftir ákveðnu útliti og og kirkjustíl sem endurspeglar starfsemi kirkjunnar svo helgihaldið kallist á við arkitektúrinn,“ útskýrir Guðmundur. Húsið sjálft eigi að endurspegla heilagleika og hefð sem kirkjan vilji standa fyrir.

„Það er oft ekki gerlegt með nýrri stíltegundum, jafnvel þótt teikningar og útfærslur kunni að vera unnar af kostgæfni,“ heldur Guðmundur áfram. „Allt helst í hendur af sérstakri nákvæmni, byggingin að innan og utan, helgisiðirnir, hreyfingar fólks í rýminu og upplifun trúarinnar. Því hneigjumst við að eldra skipulaginu og biðjum um að það fái að standa.“

Meðlimir íbúaráðs Vesturbæjar segja myndir sýna allt of lága byggingu miðað við það sem verða eigi.

Síðan vitnar Guðmundur til eldra skipulagsins þar sem segir að kirkjan verði stærsta bygging deiliskipulagsins. „Hún er sem slík eðlilega undanþegin höfuðmarkmiði deiliskipulagsins um aðlögun að smágerðu byggðamynstri staðarins. Engu að síður eru gerðar strangar kröfur um vandað byggingarlag kirkjunnar og að lögð sé rækt við næsta umhverfi byggingarinnar, þannig að hún sómi sér vel sem forystumannvirki á svæðinu.“

Séra Timur Zolotuskiy sendi inn bréf í ágúst og bað um að afgreiðslu málsins yrði frestað. Íbúasamtök Vesturbæjar vilji koma með tillögur og ræða breytingar svo hönnunin verði umhverfisvænni. „Vonandi mun það verða til þess að ná meiri einingu varðandi væntanlega kirkjubyggingu,“ skrifar séra Timur.

Tveir af sex meðlimum hins pólitískt skipaða íbúaráðs Vesturbæjar, formaðurinn Birgir Þröstur Jóhannsson og Björn Karlsson, segjast harma að að hlutföll í tölvumyndum af kirkjubyggingunni sýni ekki hámark leyfilegs byggingarmagns heldur lægri byggingu. „Tölvumynd ætti að sýna byggingu sem er rúmlega þrisvar sinnum hærri en appelsínugula húsið,“ skrifa þeir og eiga þá við nærliggjandi hús.

Íbúasamtök Vesturbæjar segjast hins vegar fyrir sitt leyti fagna að kirkjubyggingin hafi verið einfölduð og lækkuð og að hönnunin lofi góðu. Hafa samtökin þó athugasemdir varðandi götur, stíga og bílastæði. Halda ætti kynningarfund fyrir íbúa. „Um er að ræða stóra byggingu og nýja starfsemi sem breytir ásýnd götunnar og sjálfsagt er að gefa íbúum kost á að spyrja út í teikningarnar og hönnunina.“