„Við vildum gefa konum vett­vang þar sem þær gætu verið bæði konur og fatlaðar því það var hvergi pláss fyrir okkar til­veru,“ segir Freyja Haralds­dóttir, tals­kona Tabú og doktors­nemi, en ný­verið fengu þær styrk frá fé­lags- og dóms­mála­ráðu­neyti til að halda fjögur nám­skeið sem eiga að styrkja að­gerðir stjórn­valda gegn of­beldi á tímum CO­VID-19.

Þær Sig­ríður Jóns­dóttir og Svava Ing­þórs­dóttir hafa báðar sótt nám­skeið hjá Tabú og segja það hafa opnað augu þeirra og hjálpað þeim að skilja sína eigin til­veru og gefa upp­lifunum sínum nafn.

Tabú var stofnað árið 2014 af henni og Emblu Guð­rúnu Ágústs­dóttur. Að sögn Freyju byrjuðu þær, eins og svo margir aðrir á Face­book og vissu kannski ekki al­menni­lega hvað þær voru að fara út í. Svo á­kváðu þær að halda nám­skeið fyrir fatlaðar konur sem hafi fengið mjög mikil og góð við­brögð og fyllst fljótt. Þær héldu fimm nám­skeið á tíma­bilinu 2014 til 2017 og voru þau öll styrkt af til­fallandi styrkjum og því aldrei út­séð um hve­nær næstu nám­skeið gætu verið haldin.

Hún segir að í grunninn séu nám­skeiðin hugsuð vett­vangur fyrir fatlaðar konur, sís og trans, og kyn­segin fólk til að koma saman, deila reynslu, fá fræðslu um able-isma, femín­isma og það sé talað um ýmis mál­efni svo sem hvernig fötlun hvers og eins er skil­greind. Þá skoða þau kyn­verund, kyn­líf, líkams­í­mynd og margt fleira.

„Mark­miðið er, meðal annars, að konur fái gler­augu til að greina betur hvað er í gangi í kringum þær. Við höfum séð að þær konur sem hafa komið á nám­skeiðin hafa sett gler­augun upp að þeim loknum og áttað sig á því að þær eru ekki einar og að það sem þær upp­lifa er ekki þeim að kenna. Við föttum að það sem er erfitt í okkar lífi er flest ekki ein­stak­lings­bundið, heldur kerfis­bundið,“ segir Freyja.

Sigríður segir að það hafi verið henni alger bylting að læra allt sem hún lærði á
Fréttablaðið/Ernir

Komst aldrei að rót vandans

Sig­ríður segir að hún hafi dottið ó­vart inn á nám­skeið hjá Tabú en það hafi gjör­sam­lega breytt lífi hennar.

„Ég er að nálgast fimm­tugt þegar ég er að koma inn í þetta starf. Ég er fædd fötluð kona og hef verið að burðast með öll skila­boðin sem hafa verið á herðum mér allt mitt líf og alltaf bara verið að sor­tera úr því sjálf,“ segir Sig­ríður.

Hún segir að hún hafi nær alla ævi verið hjá sál­fræðingum og læknum en þeir hafi kannski ekki haft skilning á því hvar rótin var að van­líðan hennar og þeim verk­efnum sem hún var að takast á við.

„Þetta var því­lík opin­berun að mæta á nám­skeið því mig þyrsti svo í þetta sam­tal. Við sem mættum á nám­skeið þá fundum alveg fyrir því að við vildum ekki að kvöldið endaði. Um leið og maður fór að deila sinni reynslu þá vorum við um leið að greina sam­fé­lagið. Hvernig mis­munun birtist, örá­reitni birtist og í hverju. Við sem vorum þarna vorum að bera saman bækur okkar hvernig upp­lifunin er og hvaða form hún getur tekið. Það var svo of­boðs­lega frelsandi og loksins var maður að tala inn í rými sem bæði skildi hvað maður var að upp­lifa og hafði reynslu til að deila,“ segir Sig­ríður.

Hún segir að frá því hafi hún verið partur af þessum hópi sé líðanin allt önnur. Strax og vit­neskjan var komin þá breyttist allt.

„Það er ekki fyrr en maður sér strúktúrinn í kringum þekkinguna sem það breytist samt. Þá getur maður gefið hlutunum nafn, eins og örá­reitni og mis­munun, og maður getur þannig skil­greint og flokkað reynslu sína í það sem hún er. Það er ekki á mínum herðum að leysa það heldur sam­fé­lagsins,“ segir Sig­ríður.

Svava bendir á að fatlaðar konu tilkynni ekki og kæri ekki ofbeldi því þær eru hræddar við að missa þjónustu.
Fréttablaðið/Ernir

Sam­staða fatlaðra mikil­væg

Svava segir að hennar reynsla sé ólík Sig­ríðar. Hún hafi fengið greiningu sem krónískur geð­klofi, eða cronic schizop­hrenia, þegar hún var um tví­tugt. Þá veiktist hún fyrst og lagðist inn á Klepp.

„Ég man nú ekki af hverju ég fór á nám­skeið hjá Tabú en þar fékk ég að kynnast öðru fötluðu fólki, en ég er skil­greind sem geð­fötluð. Þar kynntist ég alveg mögnuðum fötluðum kven­hetjum. Freyju og Emblu, en þær eru í raun svo­lítið kven­fyrir­myndir mínar,“ segir Svava.

Hún segir að þær hafi opnað augu hennar fyrir mikil­vægi sam­stöðu þegar vegið er að fötluðu fólki.

„Í aug­lýsingu frá lög­reglunni er talað um að fatlaðar konur séu í meiri­hluta þeirra sem verða fyrir of­beldi en kæra ekki endi­lega. Því þær eru hræddar, hræddar um að missa þjónustu og hræddar við þá sem beita þær of­beldi. Hræddar við hótanir geranda og hræddar að vera ekki trúað. Og svo fá ger­endurnir bara lítinn dóm. Þetta er réttinda­bar­átta fatlaðs fólks og nám­skeiðin efla fólk og styrkja. Styrkja fólk í að standa með sér. Það er svo gott að við á litla Ís­landi eigum svona góðar fyrir­myndir,“ segir Svava.

Freyja segir að það sé ó­trú­lega góður punktur með óttann sem fatlaðar konur upp­lifa og að það hafi komið skýrt fram á nám­skeiðunum.

„Mark­miðið er að geta lagt til­finningarnar á borðið og upp­lifa að maður er ekki einn með þær. Við vitum kannski að eitt­hvað sem við upp­lifum er ó­boð­legt en óttinn við að kvarta er of mikill. Það er okkar von að í krafti hópsins minnki óttinn og það verði auð­veldara að burðast með hann, saman. Mér per­sónu­lega finnst, með því að hafa verið að leiða nám­skeiðið, og það hljómar kannski klisju­lega, en mér finnst ó­trú­lega fal­legt að sjá fólk koma saman sem þekkist ekki og deila reynslu, sem er samt ólík,“ segir Freyja og bætir við:

„Það verður til traust og það er svo dýr­mætt þegar maður á­kveður að setja mörk eða setja fram ein­hverjar kröfur að hafa þennan hóp til að leita til.“

Freyja segir að þær hafi oft talað um haturs- og ástar­sam­band við orðið fötlun.
Fréttablaðið/Ernir

Má ekki gleyma því að sumar fat­lanir eru ekki sjáan­legar

Hún segir að það megi ekki gleyma því að fat­lanir eru ó­trú­lega fjöl­breyti­legar og hafi mis­munandi á­hrif á líf þeirra sem eru fötluð.

„Það eru rosa­lega miklar hug­myndir um hvað er fötlun, eða að þessi eða hinn sé ekki nógu fatlaður. Eða ef fötlunin er ekki sýni­leg þá fái fólk ekki að skil­greina sig fatlað. En þetta er eitt af því sem við viljum vinna gegn. Það á ekki bara að vera steríó­týpan af hreyfi­hamlaðri mann­eskju, sem er á bíla­stæða­merkingu. Það er mikil­vægt að fólk viti að það geti allt fatlað og lang­veikt fólk komið á nám­skeiðið. Það skiptir engu máli hvort fólk er með þroska­hömlum, hreyfi­hömlun, geð­sjúk­dóma eða lang­varandi veikindi. Sam­eigin­lega reynslan er able-isminn og mis­réttið og það tengir okkur öll saman,“ segir Freyja.
Þær segjast sam­mála um að það sé vanda­mál fyrir fatlað fólk að það fær ekki að vera fatlað á eigin for­sendum.

„Við höfum oft talað um haturs- og ástar­sam­band við orðið fötlun og hvernig fólk á að höndla þann stimpil og hvort á að vera að höndla hann. Það er svo margt sem að fólk veltir fyrir sér þegar það þarf að skil­greina sig. Þetta er mjög flókið fyrir marga,“ segir Sig­ríður.

Freyja segir að hún og Embla hafi oft lent í því að konur hringi og hrein­lega spyrji hvort þær séu nógu fatlaðar til að vera með á nám­skeiðinu.

„Þetta er svo sláandi reynsla. Ég er mikið hreyfi­hömluð og með sýni­lega skerðingu og hef aldrei þurft að sanna fyrir neinum að ég er fötluð. Það var á­kveðið „wake up call“ fyrir mig að átta mig á því að í því sam­hengi er ég í á­kveðinni for­réttinda­stöðu. Að vera með sýni­lega á­berandi fötlun sem er ekki hægt að vé­fengja,“ segir Freyja.

Svava tekur undir þetta og segir að það sé mjög erfitt að þurfa að sanna sína fötlun.

Þetta er svo sláandi reynsla. Ég er mikið hreyfi­hömluð og með sýni­lega skerðingu og hef aldrei þurft að sanna fyrir neinum að ég er fötluð. Það var á­kveðið „wake up call“ fyrir mig að átta mig á því að í því sam­hengi er ég í á­kveðinni for­réttinda­stöðu. Að vera með sýni­lega á­berandi fötlun sem er ekki hægt að vé­fengja

Skilgreiningar nái ekki utan um allt ofbeldi

Freyja segir að á nám­skeiðinu sé lögð mikil á­hersla á að fara yfir skil­greiningar á of­beldi og hvort að upp­lifun fatlaðra kvenna af því falli undir það og í­trekað að þótt svo að það sé ekki innan form­legrar skil­greiningar þá sé upp­lifun þeirra sönn og raun­veru­leg.

Freyja tekur dæmi um #met­oo byltinguna og að í henni hafi margar fatlaðar konur greint frá því að þær hafi upp­lifað þvingaða læknis­með­ferð á sam­bæri­legan hátt að margar konur upp­lifa nauðgun.

„Ein­kenni af­leiðinga og við­brögð eru svipuð en það er aldrei skil­greint sem of­beldi en hefur sam­bæri­leg á­hrif á líf þitt. Það er því mark­mið okkar að fólk sjái að á­fall eða of­beldi er ekki bara hvernig meiri­hlutinn skil­greinir það. Það er í raun of­beldi að upp­lifa ótta við það að missa þjónustu ef maður kvartar, það er kerfis­lægt of­beldi. Það er í lagi að finnast örá­reitni ó­geðs­lega erfið og að það valdi manni kvíða og þung­lyndi að takast stans­laust á við hana,“ segir Freyja.

Sig­ríður segir að hún vilji beina því til fólks sem er að hugsa um að fara á nám­skeiðið að það er engin krafa gerð um að opna sig um erfiða hluti.

„Það er nóg að vera til staðar. Fyrir mörg okkar getur of­beldi og það sem fólk hefur reynt verið of erfitt til að snerta á og það er engin krafa um að það sé rætt á nám­skeiðinu. Það er bara mikil­vægt að hlusta á hvernig við skil­greinum of­beldi, hvernig við hugsum um það og að við fáum leyfi og næði til að sor­tera það fyrir okkur sjálf í hverju við höfum lent áður en við förum að taka það upp og viðra það. Það er svo mikil­vægt að öðlast skilninginn á því og fá að skil­greina það sjálf ,“ segir hún.