Renata Sara Arnórsdóttir framleiðir efni á Onlyfans og starfar fyrir réttindasamtökin Rauðu regnhlífina sem aðstoðuðu við gerð og styðja frumvarp Pírata sem kveður á um að afnema bann við klámi. Hún segir það mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt, að starfsgreinin sé lögleg og að öryggi fólks sé tryggt.
„Það skiptir sérstaklega máli fyrir okkur að geta fengið leið til þess að „legitimæsa“ okkar vinnu. Af því að við erum nú þegar að sinna þessari vinnu og viljum ekki eiga það á hættu að tekjurnar séu teknar af okkur eða að við séum sektuð, eða jafnvel sæta refsingum fyrir að bara vinna. Fyrir að sjá fyrir okkur með þeim sem hætti sem við viljum. Það skiptir svo miklu máli að við ráðum hvað við gerum við okkar líkama. Það er starfsfrelsi og ríkið á ekki að geta hamlað þér að sinna því starfi sem þú vilt sinna, og þetta fellur undir það,“ segir Renata Sara Arnórsdóttir en hún berst fyrir því sem kynlífsverkakona og meðlimur samtakanna Rauðu regnhlífarinnar að frumvarp Pírata um að afnema bann við klámi verði samþykkt.
Rauða regnhlífin er regnhlífarsamtök fyrir alla sem eru í kynlífsvinnu. Það getur verið fólk á Onlyfans eða í vændi. „Það er allur skalinn en inni í þessu eru líka stripparar og þau sem framleiða klámfengið efni á Onlyfans,“ segir Renata.
Spurð hvort hún finni fyrir fordómum í samfélaginu segir Renata að hún finni það til dæmis þegar hún sækir um vinnu. „Ég fæ aldrei svar við umsóknum mínum og ég er eiginlega búin að gefast upp á því að finna mér venjulega vinnu á Íslandi. Það er sniðugt fyrir kynlífsverkafólk að vera í venjulegri vinnu samhliða. Það geta verið misjafnlega miklar tekjur eftir mánuðum,“ segir Renata og að með því væri fólk með einhverja grunntryggingu fyrir framfærslu.
Sumir segja að þetta sé ekki endilega starf. Fólk sæki aðeins í þetta í neyð. Hvernig svarar þú svona gagnrýni?
„Ég held að öll störf séu eitthvað sem fólk sinnir í neyð. Við erum öll í þeirri neyð að þurfa að borga leigu eða að eiga fyrir mat eða bílnum eða hverju sem við þurfum að borga fyrir. Þetta er ekki auðveld vinna og þetta er ekki fyrir hvern sem er og við myndum heldur aldrei halda því fram,“ segir hún ákveðin.
Ekki vinna fyrir alla
Hún segir marga forvitna um þessa vinnu og að reglulega leiti fólk til hennar en að oftast mæli hún gegn því við fólk að vinna við framleiðslu á klámfengnu efni og þá sérstaklega ef það er í annarri vinnu.
„Ef ég sé að þau vilja eiga framtíð í öðrum geira þá mæli ég gegn þessu. Nema fólk sé tilbúið að takast á við það að fá ekki vinnu í ákveðnum geirum, því einhvern tímann varstu að vinna á Onlyfans.“

Hún segir lögregluna ekki hafa sérstaklega sótt mál gegn þeim en að það komi reglulega upp í fréttum að lögreglan ætli sér að rannsaka framleiðslu klámfengins efnis og að vegna þess sé ávallt hangandi yfir þeim ákveðin ógn. Hún segir erfitt fyrir lögreglu að rannsaka sérstaklega kaupendur því fólk geti verið skráð á Onlyfans sem kaupendur bara til að kaupa sér aðgang að listamanni sem er að gera „behind the scenes“ eða einhverjum sem er að framleiða klám.
„Það væri erfitt fyrir lögreglu að gera greinarmun á þeim og hvort eð er þá hefur fólk alltaf aðgengi að fríu klámi þannig að það væri ómögulegt að ætla að fara á eftir þeim sem horfa á klám. Það er of algengt.“
Ekkert breyst frá 1940
Í greinargerð með frumvarpi kemur fram að grein hegningarlaganna, sem um ræðir, hafi í raun verið eins frá setningu laganna árið 1940 en að á sama tíma hafi viðhorf, umræða og kynhegðun gjörbreyst.
„Við erum ekki að veita neinum vernd. Við höfum aldrei haft nein úrræði fyrir kynlífsverkafólk neins staðar og fyrir okkur eru engar lausnir. Ef eitthvað er hafa lögin bara gert vinnuna hættulegri,“ segir hún.
Hún segir kynlífsverkafólk sem dæmi ekki geta gengið í stéttarfélag og barist þannig fyrir bættum hag.
„Því lögin segja að við eigum ekki að vera að gera þetta. Svo er annað og það er greiðsla skatta. Hvernig eigum við að útskýra þessar tekjur ef vinnan er ólögleg?“ segir Renata og að í Svíþjóð greiði sem dæmi kynlífsverkafólk, sem selur vændi, skatt af því til ríkisins.
Vill borga skatta
Hún segir svo margt við lögin virka hvert gegn öðru, sérstaklega hér heima, og það sé ein helsta ástæðan fyrir því að hún og þau sem starfi í þessu vilji að lögin séu skoðuð. Sem dæmi er samkvæmt lögum ólöglegt að þriðji aðili hagnist á kynlífsvinnu.
„Er þá ekki ólöglegt fyrir ríkið að hagnast á þessu með skattpeningum? Ég veit ekki hvort ríkið vilji fá skattpeninga kynlífsverkafólks. Þau hafa ekki talað við okkur eða reynt að vinna með okkur á neinn hátt. Ég væri til í að sjá einhvers konar námskeið fyrir fólk í þessari vinnu um það hvernig það á að fylla út skattaskýrsluna, svo það sé allt rétt,“ segir Renata sem hefur greitt sinn skatt en þurfti til þess að láta það ganga upp að ráða bókara.
„Ég væri svo til í að upplýsingarnar væru aðgengilegar og að þetta væri einfaldara. Það væri svo næs að geta bara fyllt inn eins og hver annar verktaki og að atvinnugreinin væri skráð,“ segir hún.
Það er alltaf verið að tala um að glæpavæða þennan iðnað til að bjarga okkur
Rauða regnhlífin aðstoðaði Helga Hrafn Gunnarsson Pírata, við gerð fyrstu tillögu flokksins um málið. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson þingmenn Pírata lögðu svo fram á yfirstandandi þingi fram frumvarp um málið. Ein umræða hefur farið fram nú þegar á þingi og er málið nú hjá allsherjar- og menntamálanefnd sem skilar um það umsögn áður en það fer í aðra umræðu. Umsagnir um frumvarpið eru níu og eru frá fjölbreyttum aðilum eins og BDSM á Íslandi, Jafnréttisskóla Reykjavíkur, Mannréttindafélagi Íslands, Stígamótum og svo nokkrum einstaklingum, eins og Helga Gunnlaugssyni afbrotafræðingi og Elísabetu Ólafsdóttur.
Vonast eftir breytingum
Renata segir að hún vonist til þess að málið fái jákvæð viðbrögð á þingi og frá öðrum flokkum, og almenningi.
„Það halda margir að þetta skipti ekki máli því þetta er lítill hópur. Eflaust finnst mörgum þetta óþarft. En þetta er það ekki. Ef þér er annt um mannréttindi. En ég veit að það eru skiptar skoðanir á þessu og maður sá það þegar umræðan hófst fyrst,“ segir Renata og nefnir sérstaklega grein Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, þar sem hún talaði um að Onlyfans ætti að vera ólöglegt og er þar líklega að vísa til greinar sem Sólveig Anna skrifaði með Margréti Pétursdóttur 2021 um klámiðnaðinn þegar Helgi Hrafn Gunnarsson þáverandi þingmaður Pírata hvatti til þess að ákvæði um bann við klámi yrði afnumið.
„Með því að gera þetta ólöglegt er bara verið að setja okkur í hættu og það eykur fordóma því þá erum við strax orðin glæpamenn. Það er alltaf verið að tala um að glæpavæða þennan iðnað til að bjarga okkur,“ segir Renata harðákveðin í því að aðstoðin sem hún þurfi sé ekki með þessum hætti.
„Eitt af slagorðum okkar baráttu er „Réttindi en ekki björgun“ og það á vel við hér,“ segir Renata og segir þau miklu frekar vilja að réttindi þeirra til starfsfrelsis og almennra mannréttinda séu tryggð.
Fréttin hefur verið leiðrétt. Rauða regnhlífin aðstoðaði Helga Hrafn en ekki Arndísi og Björn Leví. Leiðrétt klukkan 19.21 þann 15.1.2023.