Engar upp­lýsingar eru veittar um fram­gang rann­sóknar á slysinu þegar hoppu­kastali tókst á loft við Skauta­höllina á Akur­eyri í sumar. „Við gefum út upp­lýsingar þegar það er tíma­bært,“ segir Páley Borg­þórs­dóttir lög­reglu­stjóri á Akur­eyri.

Lög­reglan sendi frá sér yfir­lýsingu um miðjan júlí að rann­sókn á slysinu væri í fullum gangi og að málið væri yfir­grips­mikið. Þegar hoppu­kastalinn tókst á loft voru um sjötíu börn að leik inni í honum.

Hóp­slysa­á­ætlun var virkjuð skömmu eftir slysið og voru sjö fluttir á sjúkra­hús, þar af eitt sex ára barn sem slasaðist alvarlega. Barnið var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur en það missti meðvitund í slysinu og endaði á gjörgæslu.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er barnið komið af gjörgæslu og liggur nú á Barna­spítala Hringsins.