Á nýjasta fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram spurningu um hvort að tímabært væri að endurskoða útboð í tengslum við Miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöð að Njálsgötu 89.

Í tveimur útboðum til þessa hafi ekki tekist að ná samningum og því sé hægt að spyrja hvort breyta þurfi forsendum. „Það er mín skoðun að það þurfi eitthvað að endurmeta verkefnið, þar sem það berst ekki tilboð sem er í takt við þessa kostnaðaráætlun heldur fer langt fram úr. Þá ber að staldra við,“ segir Marta Guðjónsdóttir, annar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í ráðinu.

Vorið 2020 var fyrsta skrefið tekið með því að boða til hönnwunar- og framkvæmdasamkeppni um nýjan miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöð sem ætti að rísa á reit sem hefur iðulega verið titlaður Njálsgötu­róló.

Hugmynd að hönnun að leikskóla frá Reykjavíkurborg.
Mynd/RVK

Í árslok 2020 var tilkynnt hvaða hönnun varð fyrir valinu og var farið í útboð fyrr á þessu ári. Engin tilboð bárust í verkefnið í fyrra útboðinu á Evrópska efnahagssvæðinu í nýbyggingu og lóðahönnun leikskólans, en þegar verkefnið var boðið aftur út barst aðeins eitt tilboð. Það var upp á 2,6 milljarða sem er 1,1 milljarði yfir kostnaðaráætlun, 71,6 prósentustigum hærra en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Það eru valkostir til staðar. Hönnunin er mjög dýr, það er kannski hugmynd að endurhanna bygginguna eða framkvæma þetta í áföngum til að hægt sé að opna leikskólann sem fyrst. Það ætti að vera forgangsatriði að endurmeta þetta verkefni svo að það sé hægt að taka næsta skref.

Við erum enn með hundruð barna á biðlista eftir leikskólaplássi og það er ekki hægt að una því lengur,“ segir Marta og heldur áfram: „Ef áætlanir hefðu staðist værum við langt á veg komin og farið að styttast í að húsið yrði nothæft. Það þarf að bregðast við svona seinagangi strax.“