Flugfélagið Delta hefur sett farþegum það skilyrði sem ætla að fljúga til Washington á næstu dögum að þeir verði að skilja byssurnar sínar eftir heima. Gríðarleg öryggisgæsla verður um alla Washingtonborg í aðdraganda þess að Joe Biden tekur við embætti af Donald Trump sem forseti Bandaríkjanna. Um 20 þúsund þjóðvarðliðar munu standa vaktina.

Ed Bastian, forstjóri Delta-flugfélagsins, sagði í viðtali við Reuters að það væri aðeins að bregðast við ástandinu eins og það blasir við. „Við erum öll á varðbergi eftir atburði síðustu daga og vikna,“ sagði forstjórinn. Borgarstjóri Washington, Muriel Bowser, hefur beðið ferðamenn að láta það vera að koma til að fagna valdaskiptunum.