Íbúar í Neðra-Breiðholti eru uggandi yfir því að borgaryfirvöld ætli sér að byggja fjögurra til sjö hæða byggingar í Mjóddinni. Um 96 prósent íbúa skrifuðu undir mótmæli gegn fyrirætlunum borgarinnar.

Sóley Kristjánsdóttir og Gunnhildur Karlsdóttir hafa bent íbúum í Neðra-Breiðholti á hvað borgin ætli að gera. Gunnhildur, sem er grafískur hönnuður, bjó til kynningarefni sem gengið var með hús úr húsi. Þær segja samráð af hálfu borgarinnar hafa verið nánast ekkert.

„Þetta var svo illa kynnt og Gunnhildur var í raun að búa til kynningarefni fyrir borgina,“ segir Sóley, sem býr í Stekkjahverfi. Hún nýtur sólarinnar í garðinum sínum nánast frá morgni til kvölds.

Freyr Frostason, eiginmaður Sóleyjar og arkitekt, bendir á að gangi áætlanir eftir missa þau Sóley sólina vegna skugga um klukkan fjögur á jafndægri.

„Svo eru það umferðarmálin miðað við svona margar íbúðir og eru nú þegar miklar teppur á álagstímum við Stekkjarbakka og víðar í hverfinu. Einnig tel ég að skipulögð verði randbyggð með inngarði þar sem svæðið er mjög þröngt, sem þýðir að byggingar verða byggðar út í götu sem gerir enn verra skuggavarp til austurs,“ segir Freyr.

Gunnhildur bendir á að hönnun Neðra-Breiðholts sé þannig að byggðin sé lágreist og fimm til sjö hæða hús séu mjög á skjön við hönnun hverfisins.

„Það er talað um í skipulaginu að taka tillit til nærliggjandi byggða sem okkur finnst ekki verið að gera. Hverfið er byggt í halla og allir íbúar fá góða dagsbirtu og gott útsýni. En það sem er alvarlegast er að okkur íbúum finnst skorta á samtal við borgaryfirvöld,“ segir Gunnhildur, sem vill ræða við borgaryfirvöld áður en framkvæmdir hefjast við hús með 800 íbúðum og 600 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði.

„Við höfum verið að kalla eftir því en svörin sem við höfum fengið hafa verið loðin,“ segir Gunnhildur.

Þær eru sammála um að þetta sé andstæða grunnskipulags hverfisins, sem er barnvænt með góðum gönguleiðum og góðri miðju, þar sem börn þurfa nánast aldrei að fara yfir götu.

„Við erum ekki á móti uppbyggingu, alls ekki. Við viljum að sjálfsögðu fá einhverja huggulega uppbyggingu og góða þjónustu. Þetta er mikilvægt svæði sem þarf að byggja upp, en það má hafa það huggulegt og ekki á skjön við allt. Að allt í einu rísi hér einhver Manhattan-eyja hinum megin við götuna, sem þarf sér leikskóla, skóla og aðra grunnþjónustu,“ segir Gunnhildur.

Í aðalskipulagi borgarinnar til 2040 eru flestar nýbyggingar undir fimm hæðum með undantekningum, sem eru yfirleitt í úthverfum.

„Borgin vinnur fyrir okkur en er ekki þarna til að valta yfir okkur og gera eitthvað án samráðs við íbúa,“ segir Sóley.

Aðalskipulag Reykjavíkur er á dagskrá borgarráðs í dag. Í bókun meirihlutans í skipulags- og samgönguráði segir að eðlilegt sé að við mótun byggðar sé leitast við að skala byggðina niður næst hinni lágreistu íbúðabyggð.

Þær Sóley og Gunnhildur segja að best væri ef borgin hlustaði á vilja 96 prósenta íbúa sem skoruðu á borgina að heimila ekki hærri byggð en fimm hæðir.

Breiðholtið fimm til sjö hæða.jpg

Hér má sjá með rauðum lit hvar blokkirnar eiga að rísa.