Starfsfólk leikskóla Seltjarnarness er ekki reiðubúið í stækkun á núverandi bráðabirgðahúsnæði. Aðstaða fyrir nemendur og starfsfólk leikskólans sé nú þegar mjög af skornum skammti og þoli ekki frekari fjölgun.
Þetta kemur fram í bókun skólanefndar Seltjarnarness sem fram fór í vikunni. Þar er bætt við að þetta hafi komið skýrt fram í málflutningi fulltrúa leikskóla í nefndinni.

„Bent er á að fyrirhuguð frekari stækkun er bráðabirgðalausn og útlit fyrir að sama staða verði uppi á næsta ári við þörf á viðbótarplássi.

Skólanefnd ítrekar þörfina á að hafist verði handa við byggingu nýs leikskóla sem fyrst svo við getum horft til lands í því að leysa þörf á húsnæði leikskólans til langs tíma,“ segir í bókun nefndarinnar.

Minnihlutinn á Seltjarnarnesi segir í sinni bókun að fulltrúar þeirra harmi þá stöðu sem upp er komin í inntöku barna á leikskóla í bæjarfélaginu. Húsnæði skólans sé löngu komið að þolmörkum og það sama eigi við um langlundargeð starfsfólks. „Fulltrúarnir skora á bæjarráð að virða óskir stjórnenda og starfsfólks leikskólans að ekki verði enn og aftur byggt við leikskólann. Hagsmunir barna leikskólans verða ekki tryggðir með því að þrengja enn frekar að vinnuaðstöðu og leikrými þeirra. Í staðinn óskum við eftir því að allur kraftur verði lagður í að flýta byggingu nýs leikskóla.“