Hvorki Áslaug Thelma Einarsdóttir né Bjarni Már Júlíusson vilja láta af hendi umfjöllun Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sig í úttekt sem endurskoðunin gerði vegna uppsagnar þeirra hjá Orku náttúrunnar.

Í september síðastliðinn var Áslaugu sagt upp störfum hjá ON, og skömmu eftir var Bjarna Má sagt upp vegna óviðeigandi hegðunar í garð starfsmanna. Eftir mikla umfjöllun um málið í fjölmiðlum tók forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Bjarni Bjarnason, sér leyfi frá störfum á meðan úttekt Innri endurskoðunar fór fram.

Umfjöllunin um atburðarásina sem leiddu til uppsagnar Áslaugar og Bjarna Más eru bæði undanskilin í opinberri skýrslu Innri endurskoðunar, með vísun í persónuvernd þeirra tveggja. Þeim er hins vegar sjálfum heimilt að láta af hendi umfjöllunina um sig, en hafa bæði neitað að láta Fréttablaðið fá kaflann.

Í efnisyfirliti úttektarinnar sem send var á fjölmiðla sést hins vegar hvert umfjöllunarefni kaflans er. Er m.a. fjallað um „stjórnunarstíl“ Áslaugar og Bjarna, ásamt samskiptamáta Bjarna. Er einnig fjallað um upplifun starfsfólks ON af uppsögn Áslaugar ásamt því að efnislega er fjallað um uppsagnir beggja.

Bjarni sagði í yfirlýsingu fyrr í dag að hann vonaði að „ómálefnalegar atlögur“ að mannorði sínu myndi linna í kjölfar úttektarinnar. Telur hann jafnframt að úttektin síni fram á að brottrekstur sinn úr starfi hafi verið óverðskulduð og meiðandi. Bjarni segir í samtali við Fréttablaðið að hann muni ekki leita réttar síns frekar að svo stöddu.