Fjölskylda bresks unglings sem lést í umferðarslysi í fyrra hefur kallað eftir að breska ríkisstjórnin framselji Julian Assange ekki til Bandaríkjanna nema Bandaríkjamenn samþykki að senda bílstjórann sem átti sök í máli aftur til Bretlands.

Hinn 19 ára gamli Harry Dunn lést í bílslysi í ágúst í fyrra þegar Anne Sacoolas, eiginkona bandarísks diplómata, var við stýri. Sacoolas var kærð fyrir manndráp af gáleysi en var veitt diplómatíska friðhelgi og fékk að snúa aftur til Bandaríkjanna. Málið vakti hneyksli á alþjóðavísu sem náði hámarki þegar Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, neitaði kröfu Breta um að framselja Sacoolas.

Radd Seiger, lögfræðingur fjölskyldu Dunn, segir Bandaríkjamenn hafa brotið á sambandi ríkjanna með því að hafna beiðni um framsal Sacoolas. „Enginn yfir lögin hafinn og enginn á að fá að flýja réttlætið með því að flýja land, hvort sem maður er diplómati eða ekki,“ skrifaði Seiger í yfirlýsingu „Bandaríkjamenn hegða sér ekki eins og bandamenn og hafa í raun sýnt Bretlandi mikla óvirðingu.“

Seiger bætti við að Bretar ættu fyrir vikið að hafna öllum framsalsbeiðnum Bandaríkjanna, þar á meðal vegna Julian Assange, stofnanda WikiLeaks. Assange var handtekinn í apríl á síðasta ári í sendiráði Ekvadors í London að beiðni Bandaríkjamanna. Hann á yfir höfði sér 18 ákærur í Bandaríkjunum fyrir meint hlutverk sitt í að hvetja, taka við og birta upplýsingar um varnarmál ríkisins.