Með nýjum tilslökunum geta leikhúsin boðið 500 manns saman á sýningu með því skilyrði að allir gestir fari í hraðpróf — og sýni að sjálfsögðu neikvæðar niðurstöður. Þetta opnar á ýmsa möguleika fyrir stærri viðburði og verður ánægjulegt fyrir leikhúsgesti að fella grímurnar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagðist sjálf eiga mjög marga leikhúsmiða sem hún geti nú farið að nota. En hvernig verður útfærslan? Eiga áhorfendur sjálfir að sjá um að taka próf og sýna niðurstöður við dyrnar eða eiga leikhúsin sjálf að skaffa prófin?

Fréttablaðið náði tali af leikhússtjórum þriggja stærstu leikhúsanna sem hafa rými fyrir 500 manns, til að athuga málið.

Prófið þarf að vera einfalt

Marta Nordal, leikhússtjóri leikfélagsins á Akureyri, segist vera að skoða útfærslur á hraðprófum. Hún bíði eftir frekari fyrirmælum frá stjórnvöldum en að hennar mati er það skýrt: Prófið þarf að vera einfalt.

„Það er auðvitað algert skilyrði að þessi próf séu aðgengileg og ókeypis þannig að þetta verði ekki hindrun fyrir miðakaupendur. Það er okkur mikilvægt að geta selt 500 manns á tónleika og leikhús og við munum nýta okkur þetta ef þetta er auðvelt og aðgengilegt,“ segir Marta.

Leikfélagið á Akureyri með götuleikhús í sumar og hófu aftur sýningar núna í lok ágúst en þær sýningar krefjast ekki 500 manns í sal.

Marta Nordal bíður fyrirmæla um útfærslur frá stjórnvöldum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Við gerum ráð fyrir því að hið opinbera tryggi að þau verði mjög aðgengileg, að afar auðvelt verði að fara í hraðpróf og að þau verði gestum algerlega að kostnaðarlausu eins og í mörgum nágrannalöndum okkar.“

Verða ekki með hraðprófanir á sínum snærum

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, segir ekki standa til að leikhúsið verði með hraðprófanir á sínum snærum en vonir standa til að hægt verði að bjóða 500 manns í salinn í október eða nóvember.

„Ekki stendur til að leikhúsið verði með hraðprófanir á sínum snærum enda er það utanumhald sem krefst einhvers konar samræmingar svo sannreyna megi niðurstöður prófanna og svo framvegis,“ segir Brynhildur.

Hún ítrekar að ekki erum sjálfspróf að ræða þegar hraðpróf ber á góma. Enn sem komið er vinnur Borgarleikhúsið með tvö sótthólf sem rúmar 200 manns í Stóra salnum.

„Við munum gera það þar til liggur á ljósu hvernig staðið verður að málum. Nándarmörk eru fallin úr gildi og er því setið í hverju sæti í hólfi og munar það strax gríðarlega miklu – bæði fyrir upplifun gesta og svo ekki sé talað um rekstrarlega. Grímuskylda er í sölum en veitingasala í hléi er nú heimil og munar einnig miklu,“ segir Brynhildur og bætir við að eins og alltaf sé öryggi gesta og starfsfólks í fyrirrúmi. Þau stígi skrefin í takt við sóttvarnayfirvöld og samfélagið.

Brynhildur Guðjónsdóttir. Sýningar á Níu lífum eru hafnar á ný, eftir 18 mánaða hlé og þannig hefur það sem lengi var fjarlægur draumur ræst í Borgarleikhúsinu.

Hið opinbera verður að tryggja aðgengi

Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Þjóðleikhússins, segir breytingar jákvæðar fyrir leikhúsgesti og aðra menningarunnendur. Nú sé sýningarhald í raun orðið án mikilla takmarkana. Líkt og í Borgarleikhúsinu selur Þjóðleikhúsið miða í öll sæti í 200 manna hólfum. Hlé eru á sýningum og veitingasala hafin á ný.

Gestir þurfa ekki að framvísa hraðprófum þar sem enn er grímuskylda í leikhúsunum, segir Magnús Geir en gert er ráð fyrir að stækka sóttvarnarhólf upp í 500 manns um miðjan mánuð gegn því að gestir framvísi neikvæðu hraðprófi.

„Við gerum ráð fyrir því að hið opinbera tryggi að þau verði mjög aðgengileg, að afar auðvelt verði að fara í hraðpróf og að þau verði gestum algerlega að kostnaðarlausu eins og í mörgum nágrannalöndum okkar. Á sama tíma stendur til að grímuskylda falli niður.“

Þjóðleikhúsið mun taka ákvörðun um hvort og þá hvenær við farið verður þessa leið þegar nánari upplýsingar liggja fyrir um framkvæmdina. Líkt og Marta Nordal sagði þá er mikilvægt að þetta sé auðvelt fyrir leikhúsgesti.

„Við vonum svo auðvitað innilega að fljótlega verði hægt að aflétta öllum takmörkunum á menningarviðburðum og sem víðast í samfélaginu. Á hinn bóginn munum við að sjálfsögðu áfram gæta ítrustu varkárni í viðburðahaldi eins og raunin hefur verið í menningarhúsum landsins frá upphafi faraldursins.“

Magnús Geir Þórðarson.