Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi boða nú að einangra þurfi gæludýr þeirra sem smitast af apabólu eða einfaldlega aflífa þau ef ekki er hægt að koma þeim fyrir á öruggum stað. Þetta kemur fram í frétt Telegraph en þau dýr sem talin eru hvað mest í hættu eru hamstrar, naggrísir, rottur og önnur nagdýr.

Þetta úrræði er talið nauðsynlegt svo unnt sé að tryggja að sjúkdómurinn færi sig ekki frá mönnum í dýr sem myndi auka líkur á að hann yrði landlægur.

Smitist gæludýr manna er talið að sjúkdómurinn eigi þá nokkuð greiða leið í villt dýr sem myndi hafa þær afleiðingar að sjúkdómurinn gæti þá færst frá dýrum í menn með reglubundnum hætti.

Einnig yrði þá mun erfiðara að fylgjast með dreifingu sjúkdómsins þar sem smitberar væru þá orðnir margir og af mismunandi tegundum.

Apabóla hefur enn ekki greinst hér á landi en í leiðbeiningum landlæknis um apabólu má sjá að þeir sem telja sig hafa umgengist sýktan einstakling skuli ekki umgangast dýr.

Aljþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið út að náttúrulegir hýslar apabólu séu dýr í þeim löndum þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Þá brjótist út reglubundin smit þar sem menn eiga samneyti við sýkt dýr.

Áhyggjur af smitum frá dýrum í menn eru ekki nýjar af nálinni en til dæmis má nefna þá ákvörðun Dana að útrýma öllum minkastofni Danmerkur eða um 17 miljón dýrum þegar grunur lék á að COVID-19 veiran væri að stökkbreytast í þeim. Sú ákvörðun þykir enn mjög vafsöm og hefur danska ríkisstjórnin beðist afsökunar á henni.