„Okkur sýnist vera þarna blómleg viðskipti,“ segir Benjamín Magnússon arkitekt, sem er meðal þeirra sem vill að yfirvöld vinni bug á fíkniefnaviðskiptum á bílastæðunum í kringum Hamraborg í Kópavogi.

Á samráðsfundi um skipulagsmál í Hamraborg fyrir tveimur vikum viðruðu fundarmenn áhyggjur sínar af glæpastarfsemi og annarri neikvæðri hegðun á Hamraborgarsvæðinu. Sérstaklega voru nefnd til sögunnar eiturlyfjaviðskipti á núverandi stæði við Hamraborg 10–12 og Fannborg 4 og 6 og neikvæð hegðun og starfsemi. Lögðu fundarmenn áherslu á að þörf væri á myndavélaeftirliti og góðri lýsingu á svæðinu til þess að sporna gegn þessu.

Benjamín, sem lengi hefur rekið arkitektastofu í Hamraborg og var á umræddum fundi, segir vandamálið ekki nýtt af nálinni. „Maður sér að það kemur einn bíll og bíður og svo kemur enn flottari bíll og það eru opnaðir gluggar og eitthvað gengur á milli áður en farið er hvort í sína áttina,“ lýsir hann dæmigerðum viðskiptum.

Benjamín kveðst hafa fyrir fimm árum hitt fulltrúa þáverandi meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi og lýst þungum áhyggjum. „Ég stakk upp á því að það yrðu settar upp myndavélar því þær hafa fælingarmátt. Þau sögðu að það yrði athugað, en síðan eru liðin fimm ár og það er ekki ein einasta myndavél komin upp,“ segir hann. Lögreglan hafi sömuleiðis verið látin vita og hún láti stundum sjá sig.

„Hamraborgin er örugglega eitt stærsta dópsölumarkaðssvæði landsins,“ segir annar maður sem rekur fyrirtæki í Hamraborg. Maðurinn, sem ekki vill að nafn sitt komi fram, segir að næstum daglega verði menn vitni að því að dópsalar mæti á svæðið með umslög fyrir viðskiptavini. Ástandið sé afar slæmt og krakkar niður í tólf ára séu að sprauta sig í bílageymslunum. Garðyrkjumenn séu hræddir við að setja berar hendur inn í runna því allt sé fullt af sprautunálum.

„Kópavogsbær hefur tilkynnt til lögreglu þegar bærinn hefur orðið þess áskynja að eiturlyfjaviðskipti hafi átt sér stað. Vísað er til lögreglu um nánari upplýsingar um þess háttar háttsemi,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, aðspurð hvort bæjaryfirvöld viti af fíkniefnaviðskiptunum og hafi beitt sér gegn starfseminni í Hamraborg.