Ó­eirða­seggur sem fengið hefur viður­nefnið „QA­non seið­karlinn“ gæti verið dæmdur til meira fjögurra ára fangelsis­vistar fyrir aðild sína að á­rásinni á þing­húsið í Was­hington þann 6. janúar sem skipu­lögð var af stuðnings­mönnum Donalds Trumps.

Seið­karlinn, sem heitir réttu nafni Jacob Chansl­ey, vakti mikla at­hygli fyrir múnderingu sína í ó­eirðunum en hann mætti til leiks ber að ofan, með vísunda­horn á höfði og and­lits­málningu í fána­litum Banda­ríkjanna.

Á­kær­endur hafa krafist þess að um­dæmis­dómarinn Royce Lamberth dæmi Chansl­ey til 51 mánaða fangelsis­vistar en Chansl­ey játaði sig sekan fyrir að hafa ráðist inn í þing­húsið á­samt þúsundum annarra í ó­lög­mætri til­raun til að stöðva Banda­ríkja­þing frá því að stað­festa kjör Joes Bidens til for­seta Banda­ríkjanna.

„Glæp­sam­leg at­hæfi sak­borningsins Chansl­ey hafa gert hann að opin­beru and­liti ó­eirðanna við þing­húsið,“ sögðu á­kær­endur þegar þeir kröfðust 51 mánaðar dóms yfir Chansl­ey.

Ef krafa þeirra verður sam­þykkt myndi það verða þyngsti dómur sem þátt­takandi í ó­eirðunum hefur hlotið eftir að fyrrum bar­daga­kappi í blönduðum bar­daga­í­þróttum náðist á upp­töku við að berja lög­reglu­mann í ó­eirðunum var dæmdur til 41 mánaða fangelsis­dóms í síðustu viku.

Verj­endur Chansl­ey hafa beðið dómarann um að taka til­lit til þess tíma sem hann hefur setið í gæslu­varð­haldi en Chansl­ey hefur verið í haldi frá því hann var hand­tekinn í janúar.

Á meðan hann sat í gæslu­varð­haldi var Chansl­ey greindur með skamm­vinnt geð­rof, geð­hvarfa­sýki, þung­lyndi og kvíða. Þegar hann viður­kenndi sekt sína lýsti Chansl­ey yfir von­brigðum sínum með að hafa ekki verið náðaður af Donald Trump.

Trump var á­kærður af full­trúa­deildinni en sýknaður af öldunga­deildar­þingi Banda­ríkjanna fyrir að hafa ýtt undir ó­eirðirnar 6. janúar með eld­ræðu þar sem hann sagði fylgj­endum sínum að „berjast eins og and­skotinn“.

Fjórir létust í ó­eirðunum. Lög­reglu­maður við þing­húsið sem lenti í árás mót­mælenda lést degi eftir ó­eirðirnar og fjórir lög­reglu­menn sem tóku þátt í því að verja þing­húsið tóku sitt eigið líf síðar. Hátt í 140 lög­reglu­menn særðust þar að auki.