Óeirðaseggur sem fengið hefur viðurnefnið „QAnon seiðkarlinn“ gæti verið dæmdur til meira fjögurra ára fangelsisvistar fyrir aðild sína að árásinni á þinghúsið í Washington þann 6. janúar sem skipulögð var af stuðningsmönnum Donalds Trumps.
Seiðkarlinn, sem heitir réttu nafni Jacob Chansley, vakti mikla athygli fyrir múnderingu sína í óeirðunum en hann mætti til leiks ber að ofan, með vísundahorn á höfði og andlitsmálningu í fánalitum Bandaríkjanna.
Ákærendur hafa krafist þess að umdæmisdómarinn Royce Lamberth dæmi Chansley til 51 mánaða fangelsisvistar en Chansley játaði sig sekan fyrir að hafa ráðist inn í þinghúsið ásamt þúsundum annarra í ólögmætri tilraun til að stöðva Bandaríkjaþing frá því að staðfesta kjör Joes Bidens til forseta Bandaríkjanna.
„Glæpsamleg athæfi sakborningsins Chansley hafa gert hann að opinberu andliti óeirðanna við þinghúsið,“ sögðu ákærendur þegar þeir kröfðust 51 mánaðar dóms yfir Chansley.
Ef krafa þeirra verður samþykkt myndi það verða þyngsti dómur sem þátttakandi í óeirðunum hefur hlotið eftir að fyrrum bardagakappi í blönduðum bardagaíþróttum náðist á upptöku við að berja lögreglumann í óeirðunum var dæmdur til 41 mánaða fangelsisdóms í síðustu viku.
Verjendur Chansley hafa beðið dómarann um að taka tillit til þess tíma sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi en Chansley hefur verið í haldi frá því hann var handtekinn í janúar.
Á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi var Chansley greindur með skammvinnt geðrof, geðhvarfasýki, þunglyndi og kvíða. Þegar hann viðurkenndi sekt sína lýsti Chansley yfir vonbrigðum sínum með að hafa ekki verið náðaður af Donald Trump.
Trump var ákærður af fulltrúadeildinni en sýknaður af öldungadeildarþingi Bandaríkjanna fyrir að hafa ýtt undir óeirðirnar 6. janúar með eldræðu þar sem hann sagði fylgjendum sínum að „berjast eins og andskotinn“.
Fjórir létust í óeirðunum. Lögreglumaður við þinghúsið sem lenti í árás mótmælenda lést degi eftir óeirðirnar og fjórir lögreglumenn sem tóku þátt í því að verja þinghúsið tóku sitt eigið líf síðar. Hátt í 140 lögreglumenn særðust þar að auki.