„Við vitum það öll að þjóðin er að eldast og að ef mannfjöldaskrár Hagstofunnar ganga eftir verða um tuttugu prósent þjóðarinnar eldri borgarar árið 2039 og þetta verður komið upp í 25 prósent árið 2057,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra á fundi á Kjarvalsstöðum í gær við undirritun viljayfirlýsingar um heildarendurskoðun við eldra fólk. „Það er því mjög mikilvægt að við náum betur að samþætta þá þjónustu sem við erum að veita eldra fólki.“

Auk Guðmundar Inga undirrituðu yfirlýsinguna þau Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara. Jafnframt hefur verið skipuð verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að leiða vinnu við endurskoðun þjónustunnar.