„Eitt af því sem við tökum eftir þegar við tölum við kjós­endur að það er búið að búa til gjá milli austurs og vesturs í borginni, annað hvort í orðum eða til­finningum og við viljum brúa hana,“ segir Dagur B Eggerts­son, borgar­stjóri, en í mál­efna­samningi nýs meiri­hluta í Reykja­vík er tölu­verð á­hersla upp­byggingu í út­hverfum.

Meðal þeirra verk­efna sem eru fyrst á dagskrá nýs meirihluta er hús­­næðis­á­­tak og út­hlutun lóða í Úlfarsár­­dal, á Kjalar­nesi, á Hlíðar­enda, í Gufu­nesi og á Ár­túns­höfða. Þá á að efna til sam­­keppni um skipu­lag Keldna­lands og Keldna­holts og flýta þannig upp­­byggingu svæðanna með til­­komu borgar­línu.

Uppbygging í úthverfum

„Við erum að skerpa á þeirri á­herslu já,“ segir Dagur að­spurður hvort um á­herslu­breytingu sé að ræða.

„Við höfum prófað okkur á­fram, byrjuðum í Breið­holtinu þar sem við enduðum á að kaupa á­kveðna kjarna og erum að fara í and­lits­lyftingu þar. Við sjáum líka tæki­færi til að gera frá­bæra hluti í Rofa­bæ í Árbæ og við viljum horfa upp í Spöng í Grafar­voginum og hugsa hvernig væri hægt að gera hana að meiri miðju,“ segir Dagur og nefnir líka torgið fyrir framan Gerðu­berg og fleiri svæði.

„Þetta er eitt af mikil­vægu verk­efnunum því Reykja­vík er sterk sem heild og það þurfa öll hverfi að vera hluti af henni,“ segir Dagur.

Vonast eftir góðu samstarfi við ráðherra

Dagurt segir nýjan mál­efna­samning inni­halda skýrar á­herslur á hús­næðis­mál, á mál­efni barna, hraða upp­byggingu, mjög skýrar á­herslur á Borgar­línu og sam­göngu­sátt­málann, á hjól­reiða­borgina, grænu borgina og lofts­lags­málin sem verði í á­kveðnum for­gangi.

Nú er einn flokkana í meiri­hlutum einnig í ríkis­stjórnar­sam­starfi og með ráð­herra til dæmis í inn­viða­ráðu­neyti. Inntur eftir áhrifum þess svarar Dagur: „Ég vona það geti nýst og það takist gott sam­starf.“

Hann tekur þó fram að borgin hafi átt mjög gott sam­starf við ráð­herra ríkis­stjórnarinnar. „Og það veitir ekkert af því mörg af þessum stærstu málum; hús­næðis­málum, sam­göngu­málum; lofts­lags­málum; mál­efnum barna og mál­efnum fatlaðs fólks eru sam­starfs­verk­efni ríkis og sveitar­fé­laga,“ segir Dagur og bætir við: „Þar þurfum við að njóta sann­girni, við höfum mikinn metnað til að gera hlutina vel og gera þá hratt. Við bara vonum að aðrir séu á sömu blað­síðu.“

Frá blaðamannafundi nýs meirihluta í dag.

Vilja laga móralinn í borgarstjórn

Í mál­efna­samningnum er sér­stak­lega fjallað um starfs­andann í borgar­stjórn og nauð­syn þess að bæta hann.

Ég held að allir sem voru í borgar­stjórn á síðasta kjör­tíma­bili séu sam­mála um að þetta skipti máli, að borgar­stjórn bæði bæti starfs­andan,“ segir Dagur.

Ræða þurfi hvernig þessi hópur fólks, sem í grunninn eigi að vinna að því að gera betri borg, birtist út á við þannig að ein­hverjar inn­byrðis ill­deilur og krytur yfir­skyggi ekki hin raun­veru­legu verk­efni frá degi til dags,“ segir Dagur. Þetta eigi við um bæði minni­hluta og meiri­hluta.

Útilokar ekkert en gefur engar meldingar um framtíðina

Dagur B Eggertsson lætur af em­bætti borgar­stjóra í janúar 2024. „Þá tek ég við for­mennsku í borgar­ráði, sem er ærinn starfi. Hvað fram­tíðin ber í skauti sér eftir það, því get ég auð­vitað ekki svarað frekar en nokkur annar,“ segir Dagur.

Hann gefur ekkert upp um hvort hann stefni í lands­málin í framtíðinni.

„Ég hef aldrei úti­lokað neitt í því en er heldur ekki að gefa neinar meldingar um það,“ svarar Dagur og bætir við:

„Þann 16. janúar 2024 verð ég búinn að vera í þessu í 3502 daga og þá tekur ein­hver nýr kafli við.“

Dagur segir það verði ærið verk­efni að fylgja mál­efna­samningi nýs meiri­hluta eftir. „Pólitík er ó­líkt því sem stundum er haldið fram, ekki ein­stak­lings­í­þrótt heldur hóp­í­þrótt, ef í­þrótt skyldi kalla.“