„Eitt af því sem við tökum eftir þegar við tölum við kjósendur að það er búið að búa til gjá milli austurs og vesturs í borginni, annað hvort í orðum eða tilfinningum og við viljum brúa hana,“ segir Dagur B Eggertsson, borgarstjóri, en í málefnasamningi nýs meirihluta í Reykjavík er töluverð áhersla uppbyggingu í úthverfum.
Meðal þeirra verkefna sem eru fyrst á dagskrá nýs meirihluta er húsnæðisátak og úthlutun lóða í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, á Hlíðarenda, í Gufunesi og á Ártúnshöfða. Þá á að efna til samkeppni um skipulag Keldnalands og Keldnaholts og flýta þannig uppbyggingu svæðanna með tilkomu borgarlínu.
Uppbygging í úthverfum
„Við erum að skerpa á þeirri áherslu já,“ segir Dagur aðspurður hvort um áherslubreytingu sé að ræða.
„Við höfum prófað okkur áfram, byrjuðum í Breiðholtinu þar sem við enduðum á að kaupa ákveðna kjarna og erum að fara í andlitslyftingu þar. Við sjáum líka tækifæri til að gera frábæra hluti í Rofabæ í Árbæ og við viljum horfa upp í Spöng í Grafarvoginum og hugsa hvernig væri hægt að gera hana að meiri miðju,“ segir Dagur og nefnir líka torgið fyrir framan Gerðuberg og fleiri svæði.
„Þetta er eitt af mikilvægu verkefnunum því Reykjavík er sterk sem heild og það þurfa öll hverfi að vera hluti af henni,“ segir Dagur.
Vonast eftir góðu samstarfi við ráðherra
Dagurt segir nýjan málefnasamning innihalda skýrar áherslur á húsnæðismál, á málefni barna, hraða uppbyggingu, mjög skýrar áherslur á Borgarlínu og samgöngusáttmálann, á hjólreiðaborgina, grænu borgina og loftslagsmálin sem verði í ákveðnum forgangi.
Nú er einn flokkana í meirihlutum einnig í ríkisstjórnarsamstarfi og með ráðherra til dæmis í innviðaráðuneyti. Inntur eftir áhrifum þess svarar Dagur: „Ég vona það geti nýst og það takist gott samstarf.“
Hann tekur þó fram að borgin hafi átt mjög gott samstarf við ráðherra ríkisstjórnarinnar. „Og það veitir ekkert af því mörg af þessum stærstu málum; húsnæðismálum, samgöngumálum; loftslagsmálum; málefnum barna og málefnum fatlaðs fólks eru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga,“ segir Dagur og bætir við: „Þar þurfum við að njóta sanngirni, við höfum mikinn metnað til að gera hlutina vel og gera þá hratt. Við bara vonum að aðrir séu á sömu blaðsíðu.“

Vilja laga móralinn í borgarstjórn
Í málefnasamningnum er sérstaklega fjallað um starfsandann í borgarstjórn og nauðsyn þess að bæta hann.
Ég held að allir sem voru í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili séu sammála um að þetta skipti máli, að borgarstjórn bæði bæti starfsandan,“ segir Dagur.
Ræða þurfi hvernig þessi hópur fólks, sem í grunninn eigi að vinna að því að gera betri borg, birtist út á við þannig að einhverjar innbyrðis illdeilur og krytur yfirskyggi ekki hin raunverulegu verkefni frá degi til dags,“ segir Dagur. Þetta eigi við um bæði minnihluta og meirihluta.
Útilokar ekkert en gefur engar meldingar um framtíðina
Dagur B Eggertsson lætur af embætti borgarstjóra í janúar 2024. „Þá tek ég við formennsku í borgarráði, sem er ærinn starfi. Hvað framtíðin ber í skauti sér eftir það, því get ég auðvitað ekki svarað frekar en nokkur annar,“ segir Dagur.
Hann gefur ekkert upp um hvort hann stefni í landsmálin í framtíðinni.
„Ég hef aldrei útilokað neitt í því en er heldur ekki að gefa neinar meldingar um það,“ svarar Dagur og bætir við:
„Þann 16. janúar 2024 verð ég búinn að vera í þessu í 3502 daga og þá tekur einhver nýr kafli við.“
Dagur segir það verði ærið verkefni að fylgja málefnasamningi nýs meirihluta eftir. „Pólitík er ólíkt því sem stundum er haldið fram, ekki einstaklingsíþrótt heldur hópíþrótt, ef íþrótt skyldi kalla.“