Þingflokkur Miðflokksins og tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja til að lögum um grunnskóla verði breytt svo aftur verði kveðið sérstaklega á um kennslu kristinfræði.

Í núgildandi lögum segir að í aðalnámskrá grunnskóla skuli vera ákvæði um trúarbragðafræði. Vilja þingmennirnir að nafni námsgreinarinnar verði breytt í kristinfræði og trúarbragðafræði og með því auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins.

Kristinfræði breytt í trúarbragðafræði 2008

Í lagafrumvarpinu er saga kristinfræðikennslu á Íslandi rakin í ítarlegu máli og sjónum beint að þeim breytingum sem áttu sér stað með gildistöku nýrra grunnskólalaga árið 2008. Frá þeim tíma hefur kristinfræði verið kennd sem hluti af víðtækari trúarbragðafræðslu en ekki sem sérstakt fag.

„Skólanum er ætlað að miðla grundvallargildum þjóðfélagsins, sem hér á landi eru byggð á kristnum rótum. Fræðsla í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði miðlar nemendum þekkingu á eigin rótum,“ segir í frumvarpinu sem Brynjar Níelsson og Ásmundur Friðriksson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, leggja fram auk Miðflokksins.

Þekking á Biblíunni sögð forsenda skilnings á vestrænni menningu

„Eðlilegt hlýtur að teljast að fjallað sé ítarlegast um þau trúarbrögð sem ríkjandi eru í samfélaginu og þekking á kristni og Biblíunni er forsenda skilnings á vestrænni menningu og samfélagi. Þekking á eigin trú er forsenda til skilnings á trú annarra og leið til umburðarlyndis.“

Kalla flutningsmenn frumvarpsins eftir því að fyrirkomulag kennslunnar verði fært nær því sem var fyrir breytinguna árið 2008 og að sérstök áhersla verði lögð á kristinfræði.

„Eðlilegt er og æskilegt að kristinfræði sé kynnt æsku þjóðarinnar í meira mæli en gert er. Æska landsins á rétt á að fá að kynnast trúarbrögðunum sem mótuðu það samfélag sem við búum í. Saga landsins og kristni er að mörgu leyti samofin, þess vegna á kristinfræðin að njóta sérstöðu innan veggja grunnskólanna,“ segir í frumvarpinu.

Foreldrar og samfélagið eigi að kynna kristna trú fyrir börnum

Þá segja flutningsmenn að grunnur þess siðgæðis sem íslenskt samfélag hafi byggt á sé í anda kristilegs siðgæðis. Foreldrar og samfélagið eigi að kynna trúna fyrir börnum „því ef við gerum það ekki, erum við í raun að velja fyrir þau.“

„Af hverju ættum við að takmarka kosti barnanna eða jafnvel forða þeim frá þeim? Kristinfræði getur hjálpað nemendum að taka sjálfstæða og ígrundaða ákvörðun um hvort þeir vilji aðhyllast kristni, önnur trúarbrögð eða jafnvel engin.“

Fræðslan í kristnum fræðum eigi þó ekki að hafa trúarlega boðun að markmiði.

„Ekki er hægt að skilja menningu okkar nema að hafa þekkingu á kristnum gildum, svokölluð fjölmenningarhyggja kemur þar ekki í staðinn.“

Þar að auki segja flutningsmenn að mikilvægt sé að auka veg kristinfræði vegna þess að innflytjendum sem komi frá ólíkum menningarheimum fari fjölgandi hér á landi. Slíkt auki kröfur um umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu.

Segja aukna fjölmenningu kalla á meiri kristinfræði

„Með vaxandi fjölgun íslenskra ríkisborgara sem eru af erlendu bergi brotnir eykst nauðsyn þess að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa og auka þar með umburðarlyndi. Slíkt er best gert með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni, og almennri fræðslu um trúarbrögð heimsins og þar með menningu og siði þjóða og þjóðarbrota. Til að slík fræðsla verði að gagni og nái að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi þarf hún að ná til allra.“

Er þá vísað til tilmæla Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi þar sem fram kemur að menntun gegni mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn skorti á umburðarlyndi og kynþáttafordómum, þar sem nemendur séu fræddir um fjölbreytileika mannlífsins og mismunandi trúarbrögð.“