„Ef fólk er ekki tilbúið til að hækka lægstu laun þá finnst mér að við þurfum að fara hina leiðina,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í borgarstjórn, sem kveðst lengi hafa talað fyrir breyttum launastrúktúr í Ráðhúsinu.

Flokkssystir Sönnu í Sósíalistaflokknum, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stendur ásamt meirihluta í stjórn stéttarfélagsins fyrir breytingum á launauppbyggingu á skrifstofu félagsins. Hefur starfsfólki skrifstofunnar nú verið sagt upp og hefur Sólveig Anna sagt að innleidd verði ný ráðningarkjör með gagnsæi og jafnrétti að leiðarljósi.

„Ég viðurkenni bara að ég hef ekki náð að fylgjast með öllum nýjustu fréttum af Eflingu, þannig að ég get ekki tjáð mig um það,“ segir Sanna spurð hvort hún hafi sambærilegar hugmyndir um launastrúktúr í Ráðhúsinu og Sólveig Anna á skrifstofu Eflingar.

„En varðandi Ráðhúsið þá hef ég sem borgarfulltrúi lagt til að við tökum umræðu um launabil og allavega ræðum það sem við teljum vera ásættanlegt launabil innan Ráðhússins,“ segir Sanna.

Hún segist hafa lagt fram tillögu í borgarstjórn um að launabilið þrír á móti einum yrði skoðað. „En ég var opin fyrir því að ræða eitthvert annað launabil ef fólki fyndist þetta ekki í lagi, þannig að hæstu laun yrðu aldrei hærri en þreföld lægstu laun,“ útskýrir Sanna.

Hún segir ekki hafa verið mikinn vilja til að ræða það innan borgarstjórnar og málið verið afgreitt þannig að þetta væri ekki rétti vettvangurinn til umræðu um málið.

„En ég hugsa með mér, ef borgarstjórn getur ekki rætt þessi málefni, hvar eigum við þá að ræða þau? Það hefur verið rekin láglaunastefna í Reykjavíkurborg og ef við ætlum að hafa þessi lágu laun, er þá eðlilegt að borgarstjóri sé með yfir tvær milljónir?“

Sanna segir mikilvægt að samhengið sé skoðað. Talað sé um að mikilvægustu störfin hjá Reykjavíkurborg séu umönnunarstörf. Störf á leikskólum og frístund til dæmis. „En við vitum að fólk í þessum störfum nær ekki að láta enda ná saman á þessum lágu launum,“ segir hún og bætir við:

„Þurfum við þá ekki einmitt að ræða hvar við teljum ásættanlegt að hafa þetta launabil, á sama tíma og við erum með stjórnmálafólk sem er með himinhá laun og fær hækkanir tvisvar á ári, án þess að við biðjum um það, því það gerist sjálfkrafa út frá hækkun á launavísitölu?“

Sanna segist hafa lagt fram tillögu í apríl 2020 um að laun borgarfulltrúa myndu ekki hækka sjálfkrafa á þennan hátt. „Sú tillaga hefur enn ekki verið afgreidd,“ útskýrir Sanna.

„Mér finnst eðlilegt að við skoðum samhengi hlutanna, að þegar við erum með fólk sem er með há laun og á sama tíma erum við sem launagreiðandi að greiða fólki mjög lág laun og lága fjárhagsaðstoð sem ekki er hægt að lifa á, þar sem fólk þarf að leita til góðgerðarfélaga til að fá mat, þá finnst mér eðlilegt að við ræðum þetta samhengi. Hvað finnst okkur ásættanlegt?“

Spurð út í tíðindin af skrifstofu Eflingar og hörkuna í umræðunni og hvort Sanna óttist hið sama yrði hún borgarstjóri og myndi grípa til sambærilegra breytinga á launastrúktúr, segir Sanna sína baráttu snúast um fólk sem hefur það verst.

„Ef við færum fókusinn þangað þá eru það raddir fólksins sem hefur þurft að neita sér um mat síðustu daga mánaðarins, fólk sem hefur þurft að velja á milli þess að greiða reikninga eða kaupa lyf,“ segir Sanna.

Aðspurð segir Sanna að sér finnist ekkert harkalegt við að endurskoða mál þeirra starfsmanna sem hafa eina milljón eða jafnvel tvær milljónir á mánuði í laun. „Mér finnst harkalegt að fólk geti ekki borðað út mánuðinn og að foreldrar geti ekki leyft börnunum sínum að æfa íþrótt. Mér finnst það vera það harkalega í þessu, að við séum með allan þennan pening í þessu samfélagi og við erum ekki að leyfa fólki að njóta góðs af því vegna þess að við erum með svo mikla stéttaskiptingu.“