Hópur banda­rískra sér­fræðinga í ráð­gefandi nefnd á vegum mat­væla- og lyfja­eftir­lits Banda­ríkjanna kusu um það í dag hvort heimila ætti bólu­setningu barna á aldrinum fimm til 11 ára með bólu­efni Pfizer.

Nefndin var ein­róma um að kostir bólu­setningar til að koma í veg fyrir Co­vid-smit vegi meira en mögu­legar auka­verkanir og þar með talið sjald­gæfar auka­verkanir eins og bólgur í poka í kringum hjartað, sem er kallað gollurs­hús eða enn sjaldnar í hjartanu sjálfu, en ung­menni og börn hafa upp­lifað það eftir bólu­setningu en tekið er fram í frétt AP um málið að þau fái stærri skammt af bólu­efninu en yngri börn myndu fá.

Mat­væla- og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna er ekki bundið af á­kvörðun nefndarinnar og er talið að þau muni sjálf taka á­kvörðun um málið á næstu dögum og þó svo að þau heimili að yngri börn fái bólu­setningu þyrfti Smit­sjúk­dóma- og sótt­varna­stofnun Banda­ríkjanna að mæla með því og á­kveða hvaða aldurs­hópar ná­kvæm­lega myndu fá hana.

Segir í um­fjöllun AP að þrátt fyrir að börn séu í minni hættu að smitast af Co­vid-19 og veikjast al­var­lega eru samt þúsundir til­fella í Banda­ríkjunum um að börn hafi veikst svo al­var­lega að þau hafi þurft á inn­lögn að halda, um þriðjungur á gjör­gæslu auk þess sem að hundrað börn á aldrinum 5 til 11 ára hafa dáið.

Skammturinn sem börn á þessum aldri myndu fá er að­eins þriðjungur af því sem er mælt með fyrir börn sem eru 12 ára eldri. Fjallað er í fréttinni um rann­sókn meðal grunn­skóla­barna í Banda­ríkjunum sem sýndi að skammturinn veitti allt að 91 prósent vörn hjá börnunum þrátt fyrir að vera að­eins þriðjungur.

Frétt AP er hér.