Birta Flókadóttir er meðal þeirra sem standa fyrir söfnun til þess að bjarga hestum, sem hafa verið vanræktir í Borgarfirði, frá sláturhúsi. Hún segir að hópurinn hafi safnað fyrir sex hrossum en vonast eftir því að geta bjargað fleirum.

Mál búfénaðar á Nýja-Bæ hefur verið til umfjöllunar síðustu vikur. Í síðasta mánuði voru 13 illa hirtir hestar af bænum sendir í sláturhús. Spurð hvers vegna hún standi í þessu segir Birta að hún sé hestakona og dýravinur.

„Og fannst rosalega leiðinlegt að sjá hrossin sem höfðu verið innilokuð í sumar og horuð losna út en enda svo samt í sláturbílnum. Þetta eru upprennandi reiðhestar sem er bara synd að lendi í sláturhúsinu og ég veit að það eru margir sem eru sama sinnis.“

Hægt er að styrkja söfnunina á vefsíðunni soshestar.com en 26 hestar eru enn á bænum og tíu metnir viðkvæmir. „Það væri frábært að geta bjargað fleirum en sex,“ segir Birta sem jafnframt hefur stofnað Facebook-hóp þar sem hægt verður að fylgjast með hvernig hrossunum mun reiða af í kjölfarið.

„Við áætlum að það kosti um 30 þúsund á mánuði að framfleyta hrossunum, hús og fóður í vetur til að koma þeim til heilsu,“ segir Birta. Þeir sem það geri geti fengið upplýsingar um hrossin og hvernig þeim líði.