Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja aukið gagnsæi í leikskólamálum og að biðlistar og staða innritunar í hverjum leikskóla liggi fyrir á vef borgarinnar.

Skóla- og frí­stunda­ráð Reykja­víkur fundar nú um dag­vistunar­mál í borginni. Ráðið var kallað saman fyrr en á­ætlað var að beiðni borgar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokksins, Mörtu Guð­jóns­dóttur, en mikið hefur verið fjallað um neyðar­á­stand í dag­vistunar­málum undan­farnar vikur. For­eldrar mót­mælu í ráð­húsinu í síðustu viku og hyggja á að setja upp hústöku­leik­skóla í ráð­húsinu á morgun.

Marta og Helgi Áss Grétars­son, borgar­full­trúi, hafa lagt fram fimm til­lögur fyrir fundinn um að setja upp bak­varða­sveit til að tryggja mönnun, að starfs­fólki frí­stunda­heimila verði heimilt að starfa á leik­skólum fyrir há­degi og að starfs­leyfum verði breytt þannig að starf­semi geti hafist þótt svo að lóða­fram­kvæmdum sé ekki lokið.

Mælaborð á vef

Marta segir að á fundinum muni þau auk þess leggja fram á fundinum tvær til­lögur um að fé fylgi barni og að sjálf­stætt starfandi leik­skólum verði fjölgað og um aukið gagn­sæi á bið­lista og að það verði sett upp mæla­borð á vef Reykja­víkur­borgar þar sem eru sundur­greindar upp­lýsingar um hvar eru laus pláss og hver er staða á bið­lista hvers skóla.

„Það verður að bregðast við því vandinn er mikill og það verður að setja þennan mála­flokk í al­geran for­gang. Staðan verður verri með hverju árinu sem líður og það er búið að lofa því kjör­tíma­bil eftir kjör­tíma­bil að brúa bilið á milli fæðingar­or­lofs og leik­skóla og því var lofað á vor­mánuðum en hefur ekki gengið eftir,“ segir Marta.

Hvað vonastu til að fá út úr fundinum? Getið þið tekið ein­hverjar al­vöru á­kvarðanir þarna?

„Við munum leggja fram okkar til­lögur til úr­bóta og vonumst til þess að það verði vel tekið í þær og það verði farið strax í það að leysa þennan vanda og koma þeim börnum að sem er búið að lofa leik­skóla­vist í haust og svo verði hratt og örugg­lega farið í að stytta bið­lista og sjá til þess að koma börnum inn á leik­skóla og við náum þessum mark­miði að tólf mánaða fái leik­skóla­vist, eins og hefur verið lofað.“

Upplýsingar eigi að liggja fyrir

Marta segir að hún vonist einnig til þess að þau fái svör við þeim spurningum sem þau lögðu fram um miðjan júlí og segir að það í raun tengist beint til­lögunni sem þau leggja fram um gagn­sæi á fundinum í dag.

„Það er með ó­líkindum að það sé ekki hægt að svara í margar vikur eða mánuði hver sé staða á bið­lista á leik­skólum eða hver sé meðal­aldur við inn­töku. Það á að liggja fyrir dag frá degi,“ segir Marta og að það valdi for­eldrum á­hyggjum auk þess sem það sé mikil vinna fyrir þau að fylgjast með og kalla eftir þessum upp­lýsingum.

„Það gengur ekki að kjörnir full­trúar fái þessar upp­lýsingar tvisvar eða þrisvar á ári og það sé lagt fyrir í skóla- og frí­stunda­ráði. Þetta á bara að liggja fyrir,“ segir Marta.