Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segist ætla leggja fram tillögu á fyrsta fundi borgarstjórnar um að banna stjórnendum og kjörnum fulltrúum Reykjavíkurborgar að þiggja laun fyrir fundarsetu í stjórnum, ráðum og nefndum sem fram fer á vinnutíma. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu borgarstjórnarflokks Sósíalista.

„Það hefur eitthvað farið alvarlega aflaga í stjórnmálum þegar borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjórar nágrannasveitarfélagana eru farnir að taka sér hærri laun en borgarstjórar New York, London og París,“ segir Sanna í fréttatilkynningu. „Við ættum að horfast í augu við að þessi laun afhjúpa spillingu stjórnmálaforystunnar og við ættum að gera eitthvað í því. Fyrsta skrefið ætti að vera að banna þessu fólki að taka þóknanir fyrir fundi sem það situr í vinnutíma sinnar aðalvinnu og sem eru því augljóslega hluti af þeim starfsskyldum sem það fær greitt fyrir af föstu launum.“

„Konan sem skúrar skrifstofu Dags B. Eggertsson er líklega með lágmarkslaun, 300 þúsund krónur á mánuði. Dagur sjálfur tekur síðan 330 þúsund krónur í þóknun fyrir einn klukkutíma á fundi hjá slökkviliðinu. Borgarfulltrúar verða að stoppa þetta. Þó ekki væri nema af virðingu fyrir konunni sem skúrar skrifstofu borgarstjóra,“ segir Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, og vitnar til fundarsetu Dags B. Eggertsson í stjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðin. Bæjarstjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sitja í stjórn slökkviliðsins og hafa þegið ellefu milljónir króna í laun það sem af er ári.

Sósíalistaflokkurinn náði einum borgarfulltrúa inn í borgarstjórn í sveitarstjórnarkosningum. Kjörtímabil nýrrar borgarstjórnar hefst 19. júní, næstkomandi þriðjudag.