Hópur Græn­lendinga, sem tekinn var af fjöl­skyldum sínum á barns­aldri og flutt nauðug til Dan­merkur árið 1951, krefst þess að fá greiddar skaða­bætur vegna þessa. Eftir­lif­endurnir eru á aldrinum 75 til 78 ára en alls voru 22 börn flutt til Dan­merkur á sínum tíma.

Danska dag­blaðið Politi­ken greindi fyrst frá málinu.

Börnin voru hluti af fé­lags­fræði­legri til­raun með það að mark­miði að kenna þeim dönsku og senda þau aftur til baka svo þau gætu myndað eins konar yfir­stétt í heima­landi sínu. Til­raunin mis­tókst hrapa­lega, með al­var­legum af­leiðingum fyrir börnin. Helmingur þeirra glímdi við and­lega erfið­leika af þessum sökum, mörg hver við vímu­efna­fíkn og dóu nokkur þeirra fyrir aldur fram.

Bannað að tala móður­málið

Er börnin komu til Dan­­merkur var þeim bannað að tala móður­­mál sitt og var þeim refsað líkam­­lega ef þau gerðu það. Eftir að dvölinni í Dan­­mörku lauk voru þau send á munaðar­­leysingja­hæli í græn­­lensku höfuð­­borginni Nuuk, þrátt fyrir að eiga fjöl­­skyldur á lífi.

„Þau misstu fjöl­­skyldu sína, tungu­­málið, menningu og sama­­stað. Þetta er auk þess brot á rétti þeirra til einka- og fjöl­­skyldu­lífs sam­­kvæmt 8. grein Mann­réttinda­sátt­­mála Evrópu,“ segir lög­maður hópsins, Mads Krøger Pramming í við­tali við Politi­ken.

Mads Krøger Pramming.
Mynd/Facebook

Fólkið krefst 250 þúsund danskra króna í skaða­bætur hvert um sig, um fimm milljónir ís­­lenskra króna, annars fari málið fyrir dóm­­stóla. Hafa þau gefið dönskum stjórn­völdum tvær vikur til að svara kröfunni.

„Við getum ekki breytt for­­tíðinni. Við getum hins vegar axlað á­byrgð og beðið þau sem við brugðumst af­­sökunar,“ sagði danski for­­sætis­ráð­herrann Mette Fredrik­­sen er hún bað fólkið opin­ber­­lega af­­sökunar á danska þinginu í fyrra. Í maí hafnaði fé­lags­­mála­ráð­herrann Astrid Kragh að ríkið greiddi hópnum skaða­bætur.

Danski for­sætis­ráð­herrann Mette Fredrik­sen.
Fréttablaðið/Getty