Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þau lýstu yfir áhyggjum af þeirri stöðu sem komin er upp í samfélaginu vegna Covid-19.

Takmarkanir eiga að gilda til miðvikudags og er algjör óvissa um hvað taki við. „Frá því að takmarkanir tóku gildi hefur fjöldi viðskiptavina á veitingastöðum og börum landsins hríðfallið,“ segir í yfirlýsingunni. Bent er á að reksturinn hafi verið að ná sér á strik en takmarkanir hafi sett stórt strik í það bataferli.

„Mikil óvissa ríkir því um framtíð fyrirtækja í veitingarekstri, sérstaklega um þessar mundir þar sem jól og áramót hafa í gegnum tíðina verið ein helsta tekjulind þeirra og tekjuhæsta tímabil ársins,“ segir enn fremur. Undirbúningur jóla- og áramótavertíðarinnar var þegar hafinn og fyrirtæki búin að gera hefðbundnar ráðstafanir.

Skora samtökin á nýja ríkisstjórn Íslands að hlúa að veitingageiranum, sem telur um tíu þúsund manns.