Grunur leikur á að brunavörnum í húsinu við Bræðraborgarstíg, sem brann niður í síðustu viku, hafi verið ábótavant. Þrír létust í brunanum og tveir slösuðust alvarlega en eldsupptök er talinn hafa verið af mannavöldum.

Rannsókn á brunanum er í fullum gangi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og er leidd af Davíð Snorrasyni, yfirmanni brunaeftirlits. Fundað var í dag með slökkviliðsstjóranum á höfuðborgarsvæðinu Jóni Viðari Matthíassyni og Nikulási Úlfari Mássyni, byggingarfulltrúa í Reykjavík þar sem farið var yfir stöðu brunaeftirlits og brunavarna.

Auka heimildir slökkviliða við eftirlit

Voru allir sammála um að fullt tilefni sé til að vinna að frekari úrbótum á regluverki og verklagi. Fyrirhuguð skráning leigusamninga og samkeyrsla leiguskrár við lögheimilisskráningar séu mikilvæg skref.

Fundarmann vilja auka heimildir til slökkviliða og byggingafulltrúa við eftirlit og aukið samstarf við tryggingafélög. Leggja þurfi áherslu á að byggingaröryggisgjaldið, sem innheimt er af ríkinu, skili sér til brunavarna.

HMS skoðar einnig hvort hindra megi að svo margir hafi skráð lögheimili á einum stað, til dæmis með bættri skráningu leiguhúsnæðis. Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að 73 einstaklingar væru skráðir með lögheimili í húsinu sem brann.

HMS bendir á að stjórnvöld hafi eingöngu yfirsýn yfir þann hluta leigumarkaðarins sem er á höndum sveitarfélaga eða þegar til staðar eru þinglýstir leigusamningar. Það sé yfirleitt ekki raunin í tilfelli herbergjaleigu til erlends verkafólks.

HMS telur að ákvæði í frumvarpi Alþingis um breytingu á húsleigulögum verði hægt að safna upplýsingum og koma auga á frávik.

Næstu skref

Næsta skref í kjölfar fundarins er að hefja vinnu og fá Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og félagsmálaráðuneytið að borðinu til að ræða úrbætur.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji skoða lagabreytingar til að efla brunaeftirlit. HMS mun fjölga sérfræðingum til að sinna þessum málaflokki.

Þrír létust í brunanum við Bræðraborgarstíg.
Fréttablaðið/Anton Brink