Hrafnhildur Vala Aðalbjörnsdóttir og Daniel Ivánonovics hafa stofnað saman fyrsta íslenska vegan og umhverfisvæna ferðaþjónustufyrirtækið. Fyrirtækið heitir Level Up og saman vilja þau vinna í áttina að því að gera Ísland að ákjósanlegri áfangastað fyrir þau sem ferðast og eru grænkerar eða grænmetisætur.
„Þetta var hugmyndin þín,“ segir Hrafnhildur en þau kynntust í ferðaþjónustubransanum fyrir um fimm árum þegar Hrafnhildur starfaði sem leiðsögumaður og Daniel var að keyra rútur.
Fyrirtækið mun bjóða upp á ferðir fyrir stóra og smærri hópa, sérsniðnar ferðir og svo verður í boði vegan matur og umhverfisvænir ferðamátar en Hrafnhildur er menntuð sem jöklaleiðsögumaður, jógakennari og markþjálfi.
„Við höfuð unnið mikið saman við leiðsögu og akstur og ég hef verið með hugmynd um að gera eitthvað í líkingu við þetta í um tvö ár,“ segir Daniel og að ein af ástæðunum hafi verið sú að sem grænkera sjálfum hafi honum oft þótt erfitt að ferðast.
„Ég gat ekki lengur bent á einhvern stað og farið þangað því ég varð alltaf að hugsa um það hvort ég myndi fá eitthvað að borða þar,“ segir hann og Hrafnhildur tekur undir það hlæjandi og bætir við:
„Alltaf hugsar maður: fæ ég eitthvað að borða.“
„Oftar er það þannig núna að ég fer á einhvern áfangastað því það er veitingastaður þar sem mig langaði að prófa,“ segir Daniel og að hann telji að hér á Íslandi séu miklir möguleikar fyrir Ísland að skara fram úr og fyrir vegan matvælaiðnaðinn að stækka.
„Eftirspurnin yrði meiri í vegan matvælaiðnaðinum og það myndi hjálpa honum við að verða stöðugri, að vaxa og lifa lengur,“ segir hann.
Daniel á og rekur líka vegan fyrirtækið Junkyard og keypti árið 2019 Teslu sem hann ætlaði að nýta í heimsendingar og ferðaþjónustu og mun hún nýtast Level Up fyrir smærri hópa.
Þannig það er ekki bara vegan, heldur umhverfisvænt?
„Já, okkur langar mjög að ferðamannaiðnaðurinn verði umhverfisvænni,“ segir Daniel og Hrafnhildur tekur undir það.

Allir geta fengið vegan mat
Daniel segir að Junkyard verði einskonar systir Level Up en í öllum ferðunum sem verða skipulagðar af fyrirtækinu verður einnig hægt að fá mat sem allur verður vegan.
„Það verður hægt að fá samlokur, salat og svo eftirrétt en það verður líka hægt að sérsníða matseðilinn að þeim hóp sem er að fara. Ef þau vilja að hann sé í hollari kantinum þá aðlögum við matseðilinn að því,“ segir Daniel og að hann hafi alltaf séð fyrir sér að þessi þjónusta stæði líka öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum til boða sem kannski hafa ekki tök á að matreiða vegan mat sjálf.
„Það er hægt að taka þetta upp á jökul eða hvert sem er. Samlokurnar eru matarmiklar og gómsætar og henta við hvaða tækifæri sem er,“ bætir hann við.
Hann segir að hann sjái einnig fyrir sér að hægt verði að þjónusta fyrirtæki úti á landi með matnum og að þau geti þá fengið í gluggann á versluninni sinni eða veitingastaðnum að þau séu með mat frá honum í boði.
„Við erum með stimpil sem stendur á „suitable for meat lovers“ og að það væri hægt að annað hvort búa til vegan matseðil sem er í takt við það sem er fyrir í boði eða að þau gætu selt samlokur eða annað sem Junkyard sér um að framreiða,“ segir Daniel.
Ég gat ekki lengur bent á einhvern stað og farið þangað því ég varð alltaf að hugsa um það hvort ég myndi fá eitthvað að borða þar
Lifði á frönskum og kók
Daniel varð vegan fyrir um fimm árum en Hrafnhildur fyrir sextán árum. Daniel segir að hann hafi tekið ákvörðunina eftir að hafa unnið með Hrafnhildi en hafi þó verið búinn að hugsa um það í einhvern tíma áður.
„Til að byrja með lifði ég á frönskum og kóki,“ og horfði svo á Hrafnhildi með kælitöskuna sína sem var full af brauði og oatly smurosti og bjó sjálf til samlokurnar sínar. Eftir það fór ég að mæta með mína eigin kælitösku,“ segir Daniel og hlær.
Þau segja bæði að það hafi verið ótrúlegt að fylgjast með þróun vegan matvælaiðnaðarins á Íslandi og segir Hrafnhildur að það sé hreinlega himinn og hafa miðað við það þegar hún byrjaði að vera vegan. Spurð hvort þau telji að skortur á vegan fæði utan höfuðborgarsvæðisins hafi stöðvað fólk í að koma til landsins segja þau það líklega ekki hafa stöðvað fólk en að það gæti gert ferðalagið ánægjulegra ef að meira vegan væri í boði víðar.
„Gæðin hafa verið lítil og svo hefur það sem er í boði verið dýrt. Það þarf að laga það. Ísland er frábær áfangastaður fyrir en með því að bæta þetta verður hann enn betri. Grænkerar vita þá að þau geta komið hingað, að það sé skrifstofa sem sér um allar þeirra þarfir og getur vísað þeim á veitingastaðina sem henta þeim,“ segir Daniel.
Þau taka það þó skýrt fram að kjötætur og þau sem ekki eru vegan geta að sjálfsögðu líka ferðast með þeim.
„Það geta allir komið með, en við sem erum vegan getum ekki farið út um allt, þannig þetta auðveldar ferðalagið fyrir alla ef einhver grænkeri er með í för,“ segir Hrafnhildur sem segir að nafnið komi að miklu leyti þaðan. Þau vilji bæta aðstöðuna fyrir þau sem er vegan og svo auka úrvalið í ferðaþjónustuiðnaðnum.
„Já við viljum að ferðaþjónustan sé grænni og að kolefnissporið sé minna,“ segir Daniel og þau benda bæði á að til dæmis með því að borða vegan þá minnkar kolefnissporið töluvert.
„Samlokurnar eru í vistvænum umbúðum,“ bætir hann við.
Þau segjast bæði spennt að hefjast handa og að það sé hægt að sérsníða ferðirnar eftir þörf en einnig hægt að kaupa tilbúnar ferðir. Á vefsíðu fyrirtækisins má sjá að til dæmis er hægt að panta skutl á flugvöllinn á Teslu, Gullna hringinn og á Reykjanes og svo er hægt að bæta við Junkyard hádegisseðlinum fyrir um 2.900 fyrir einn sem inniheldur þá samloku, snakkpoka, epli, súkkulaði og appelsínusafi.
„Við getum unnið með innlendum ferðaþjónustufyrirtækjum ef þau vilja vera í einhvers konar samstarfi og þjónustan er að sjálfsögðu í boði líka fyrir Íslendinga,“ segir Hrafnhildur og að það sé í boði að vera með gæsanir, steggjanir, hópefli eða vinkonuhópa.
„Það er allt opið,“ segir Hrafnhildur að lokum.
Fréttin hefur verið leiðrétt 9.6.2022 klukkan 10:09. Eftirnafn Hrafnhildar er Aðalbjörnsdóttir en ekki Arnbjörnsdóttir.