Leiðtogar utanríkisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings hafa óskað eftir  nánari skýringum frá Donald Trump, Bandaríkjaforseta, og jafnframt annarri rannsókn á því hvaða hlutverk Mohammed bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu, spilaði í morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi. BBC greinir frá.

Bæði leiðtogar Repúblikana og Demókrata í umræddri nefnd sendu bréf til forsetans þar sem farið er fram á að önnur bandarísk rannsókn verði gerð á morðinu en áður hafði CIA gefið út skýrslu þar sem fullyrt var að krónprinsinn hefði fyrirskipað morðið.

Þrátt fyrir umrædda skýrslu hefur forsetinn varið Sáda og krónprinsinn en sagt að „það gæti vel verið“ að krónprinsinn hafi vitað um morðið. „Kannski gerði hann það, kannski gerði hann það ekki.“ Forsetinn hefur ítrekað sagt að Sádí-Arabar séu Bandaríkjunum mikilvægir bandamenn og að það hafi áhrif á þau ummæli sem hann vilji láta út úr sér varðandi morðið. 

Í tilkynningu frá þeim Repúblikanum Bob Corker og Demókratanum Bob Menendez er farið fram á að önnur rannsókn muni hefjast þegar í stað og muni þá einbeita sér að krónprinsinum til þess að komast að því hvort að „erlend manneskja sé ábyrg fyrir brot á lögsögu annars ríkis, pyntingar og ógeðsleg mannréttindabrot.“