Jón Hjaltason, sagnfræðingur sem skipaði þriðja sæti á lista Flokk fólksins í vor ætlar ekki að tala við flokksfélaga sína sem hafa ásakað hann og aðra karlmenn innan flokksins fyrr en ásakanirnar gegn þeim hafa verið dregnar til baka og þeir beðnir afsökunar.
Mikið hefur gengið á innan flokksins eftir að þrjár konur sem skipuðu efstu sæti á lista Flokks fólksins á Akureyri í vor ásökuðu forystumenn flokksins um ofbeldi, kynferðislega áreitni og einelti í aðdraganda kosninganna í vor og eftir þær.
Ásakanirnar beinast að öllum líkindum að þeim Brynjólfi Ingvarssyni, oddvita flokksins og Jóni Hjaltason.
Inga Sæland, formaður Flokk fólksins boðaði heimsókn norður á Akureyri núna um helgina, en ekkert varð úr þeirri ferð, að sögn Jóns.
„Núna boðar hún komu sína norður og kemur svo ekki en býður okkur aftur, eða boðar okkur, með örskömmum fyrirvara að koma til fundar við hana og þau í Reykjavík núna á eftir. Því boði hef ég hafnað,“ sagði Jón í samtali við RÚV.
Hann vill að ásakanirnar séu dregnar til baka og ætlar sér ekki að hafa nein samskipti við flokksfélaga sína þangað til afsökunarbeiðni hefur borist honum. Hann segir það sameiginlega kröfu þeirra karla sem skipuðu lista flokksins í vor.
