Félagið Vantrú leggur til að sóknargjöld verði afnumin alfarið og ef ekki er hægt að verða við því þá verðu þau ekki hækkuð eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpi. Heldur standi upphæð þeirra í stað og að þau trúfélög sem vanti fjármagn finni aðrar leiðir til að fjármagna starfsemi sína, eins og með félagsgjöldum.
Félagið skilaði í dag inn umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið en í 23. Grein er lagt til að sóknargjöld verði 985 krónur og hækki þannig um fimm krónur.
„Vantrú er almennt á móti sóknargjaldakerfinu og telur að réttast væri að afnema þessi framlög úr ríkissjóði alfarið. Á móti væri hægt að lækka tekjuskatt eða hækka persónuafslátt svo að breytingin hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs og svo að þeir sem vilja styrkja trúfélög geti það. Við hvetjum nefndarmenn til að skoða hvort ekki mætti lækka upphæð sóknargjaldsins verulega í skrefum og hækka um leið persónuafslátt eða lækka tekjuskatt,“ segir í umsögn félagsins.
Þá víkur félagið í umsögn sinni einnig að umsögn Biskupsstofu um sama frumvarp en þau telja að sóknargjöldin eigi að vera um þúsund krónum hærri. Vantrú segir að þær fullyrðingar eigi ekki við nein rök að styðjast.
„Þegar upphæð sóknargjalda (leiðrétt miðað við vísitölu) er skoðuð, sést að sóknargjaldið núna er svipað og árið 1988, þegar núverandi kerfi var tekið upp,“ segir í umsögn Vantrúar og að allar fullyrðingar Biskupsstofu um að ekki sé verið að fylgja lögum séu rangar, því að Alþingi hafi ávallt haft einhliða ákvörðunarvald um sóknargjöld.
„Það vekur því furðu að Biskupsstofa saki Alþingi um að svíkja samninga sem þau vita að eru ekki til,“ segir í umsögn Vantrúar sem er hægt að kynna sér betur hér.